Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
25.3.2007 | 18:19
Velkomnir glæpamenn
Það mátti skilja það á orðum fulltrúa VG, Samfylkingar og hins nýja flokks Íslands-eitthvað í Silfri Egils að það væri eðlilegt að hingað kæmu innflytjendur sem væru glæpamenn, bara ef þeir væru jafnmargir og íslenskir glæpamenn miðað við höfðatölu. Þetta er víst köllum fjölmenning.
Við þurfum þá væntanlega að gæta þess að hingað komi fangaverðir í réttum hlutföllum svo hægt sé að gæta þessara manna þegar þeir hafa gert eitthvað alvarlegt af sér hafa verið dæmdir og settir í fangelsi?
Mann skortir bara orð til að lýsa hneykslan sinni á þessum málflutningi.
25.3.2007 | 17:51
Einn er grænn í gegn annar er gegnsær
Hvað þýðir þetta nákvæmlega að vera "grænn"? "Grænn í gegn", hvað þýðir það.
Ef átt er við að þeir grænu hafi verið á móti Kárahnjúkavirkjun, þá er það mál búið.
Eiga menn við að þeir séu á móti vikjunum í neðri hluta Þjórsár? Þá væri mjög gott að menn segðu það beint.
Eru þeir á móti hugsanlegu álveri í nágrenni Húsavíkur? Þá væri líka gott að þeir segðu það beint.
Einhverveginn finnst mér ég ekki geta lesið það af málflutningi þessara "grænu" flokka hvað þeir vilja í raun. Ég heyri engar tillögur aðrar en að allt eigi að banna. Þessir flokkar eru nánast tómir að innan og þess vegna ættu þeir að heita "hinir gegnsæu".
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2007 | 11:54
Frjálslyndi flokkurinn
Frjálslyndi flokkurinn er flokkur frjálslyndis, jafnaðar og markaðshyggju.
- Frjálslyndið merkir að flokkurinn er laus við allar kreddukenningar gamalla tíma. Hann lifir í nútímanum og hafnar gömlum úreltum skilgreiningum svo sem eins og "hægri" og ""vinstri".
- Jöfnuðurinn táknar að flokkurinn vill efla velferðarkerfið og laga þá slagsíðu sem er á afkomu launafólks, sem birtist m.a. í því að flokkurinn vill hækka skattleysismörkin (persónuafsláttinn) upp í 150.000 kr. á næstu fjórum árum.
- Markaðshyggjan felur í sér að flokkurinn vill að öll atvinnustarfsemi í landinu byggist á heiðarlegri samkeppni og heilbrigðum markaði. Hvati góðs árangurs er að allir aðilar vinnumarkaðarins séu ábirgir gerða sinna, -jafnt starfsmenn sem eigendur fyrirtækja. Opinberar stofnanir lúta öðrum lögmálum og því ber að færa sem mest að verkefnum á könnu hins opinbera til einkaðila, en gæta þess að vega ekki að velferðarkerfinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.3.2007 | 10:16
Grunnskólinn - pistill á útvarpi Sögu
Tilefni þessa pistils hér á útvarpi Sögu er að ég er í framboði til Alþingis í kosningunum 12. maí n.k., - er í öðru sæti á lista Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi-Suður. Í dag þegar þetta er talað, er fimmtudagur 22 mars, árið 2007. Skólamál eru nauðsynlegt umræðuefni í fjölmiðlum því staðreyndin er sú að við lifum eiginlega öll fyrir það að vera í skóla eða að einhver sem við berum ábirgð á sé í skóla. Umræðan og mætti hinsvegar gjarnan vera meiri. | ||
Skóla á Íslandi má flokka niður eitthvað á þess á leið: leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar, -sem eru flestir bóknámsskólar, en aðrir verkmennta- iðn- verslunar- og íþróttaskólar-, háskólar, tölvuskólar og listaskólar, -en þar á ég við tónlistarskóla, dansskóla, myndlistarskóla, leiklistarskóla og ballettskóla. Fleiri skólar eru eða hafa verið til eins og t.d. málaskólar og einstaka skólar sem sérhæfa sig í afmörkuðum viðfangsefnum eins og t.d. stærðfræðikennslu, íslenskukennslu o. s. frv. Skólar eru ýmist reknir af ríkinu, sveitarfélögum eða einkaaðilum. Í grófum dráttum má segja að ríkið reki framhaldsskólana og tvo háskóla, þ.e.a.s Háskóla Íslands og Kennaraáskólann, en styrki aðra háskóla, sveitafélögin reki grunnskólana, leikskólana og listaskólana og einstaka námskeið og einkaaðilar tölvuskóla og sérkennslu. Í Reykjavík reka einkaaðilar tónlistarskólana, en með fjárframlögum frá borginni. Eflaust gleymi ég einhverju hér, en svona er þetta í stórum dráttum. En það sem mig langar að minnast hér á í þessum pistli varðar grunnskólann. Stundum sakna ég þessara daga grunnskólaáranna, -daga hinna ábyrgðarlausu æsku. Það er einmitt á grunnskólaárunum sem maður lifir fyrir líðandi stund, fyrir hverja mínútu. Hvert augnablik er ævintýri og maður hefur engar áhyggjur, -hvorki af fortíðinni eða framtíðinni, -lífið er bara leikur. Og þannig vil ég að börnin sem nú eru í grunnskóla njóti tímans. Það er 10 ára skólaskylda á Íslandi og hugmyndir skólafólks um viðfangsefni grunnskólans margs konar. Hið opinbera gerir kröfur um hvað börnin skulu læra, en umfram allt er ætlast til að á þessum árum öðlist börnin félagslegan, andlegan og líkamlegan þroska til að takast á við lífið sem er framundan, -skólastarfið tekur mið af þessu, eða ætti að m.k. að gera það. Grunnskólastarf á Íslandi er á heildina litið mjög gott, -sérstaklega ef við berum það saman við fyrri tíð. Ég fullyrði að meirihluti fólks eigi bara góðar minningar um grunnskólann og telji sig hafa notið vel þessara ára. Það er þó ekki allt heilagt í grunnskólanum og því vil ég nefna hér atriði sem ég tel að betur megi fara. Af því að ég nefndi það að flestir ættu góðar minningar úr grunnskólanum, - þá er það því miður ekki alveg svo með alla, -það njóta þess ekki allir að vera í skólanum. Mörgum grunnskólanemendum leiðist nefnilega í skóla. Einkum eru það drengir sem finna sig ekki í náminu og hjá mörgum þeirra fer hvert skólaárið á fætur öðru til spillis. Þetta á einkum við um skólagönguna seinni helminginn grunnskólaáranna. Fyrirbrigðið er ekki nýtt, því til eru frásagnir fullorðins fólks um að grunnskóladvölin hafi verið þeim nánast sem kvöl. Það er engin einföld lausn til á vandamáli sem þessu, en benda má á atriði sem skipta máli. Fyrsta skrefið hlýtur að vera það, að menn kannist við fyrirbrigðið. Af því hér var nefnt að það hafi verið kvöl fyrir suma að ganga í skóla, þá er kvöl tilfinningarlegt fyrirbrigði og menn bera yfirleitt ekki tilfinningarnar utan á sér. Þannig að það getur verið erfitt fyrir t.d. starfsfólk grunnskóla að greina svo mikla vanlíðan. Hins vegar kemur skólaleiði einfaldlega fram í lélegum eða ófullnægjandi námsárangri, þannig að menn hafa yfirleitt tækifæri á að taka á málum ef þeir vilja og geta. Ég trúi því ekki að það sé eitthvert náttúrulögmál að hópi grunnskólabarna þurfi að líða illa í skólanum. Ég hef þá kenningu að það þurfi að taka meira tillit til þarfa barnanna og laga grunnskólastarfið að breyttum þjóðfélagsháttum og það þó fyrr hefði verið. Kvöl þeirra pilta eða stúlkna sem leiðist í skólanum stafar fyrst og fremst af því að þau hafa ekki verkefni sem fullnægja hreyfiþörf þeirra áhugamálum og þroska. Þau hafa semsagt ekki verkefni við hæfi. Grunnskólinn á Íslandi hefur alla tíð byggst á miklu bóknámi. Drengir sem eru að vaxa þurfa hreyfingu og miklu meiri hreyfingu en grunnskólinn ætlar þeim. Bóknám býður ekki upp á mikla hreyfingu. Þannig hefur þetta verið lengi, -í marga ártugi. Og nú keyrir kyrrsetan um þverbak. Við bætist að börn eru miklu minna úti að leika sér en áður og fá þess vegna minni hreyfingu. Um helmingi grunnskólabarna er ekið í skólann á morgnana hér í Reykjavík. Flestir grunnskólanemendur sitja langan tíma dag hvern fyrir framan tölvu í tölvuleikjum og öðru heima við. Það er alveg ljóst að það er orðið stórvandamál hversu margir nemendur eru illa á sig komnir af kyrrsetu og hreyfingarleysi. Við eigum eftir að sjá afleiðingarnar þegar unga fólkið vex úr grasi. Tölvan og tölvunotkun hefur átt hug landsmanna á undanförnum árum og jafnt hjá einstaklingum sem forystumönnum fræðslumála, -en fyrr má nú rota en dauðrota-. Til að bæta úr þessu þurfa skólamálayfirvöld að taka sig á, bæði ríkið og sveitarfélögin. Aðalhlutverkið við það verkefni leikur menntamálaráðherra. Þó svo sveitarfélögin reki grunnskólana er það Alþingi sem setur lög um grunnskóla og menntamálaráðherra sér um framkvæmd laganna. Menntamálaráðherra getur gert kröfur til sveitarfélaganna og grunnskólafólks um breytingar á starfsháttum skólans í þágu barnanna. Það þarf að endurskoða grunnskólalögin og námsskrár. Taka tillit í námskránni til þarfa barna fyrir hreyfingu alla skóladaga, -en vinnudagur barnanna í skólanum hefur stöðug verið að lengjast á undanförnum árum og nú er svo komið að flest öll börn eru í skóla frá kl. 8:00 á morgnana til kl. 14:00 eða 2 á daginn, -eða í samtals 6 tíma. Auk þess eru yngri börnin mjög mörg áfram í skólanum í Frístundaheimilunum, -sem þau eru kölluð hér í Reykjavík, -og eru þar allt til kl. 17:00. Þar með er skóladagurinn orðinn 9 tímar. Við getum ekki bara haldið áfram að óbreyttu, því þá fljótum við sofandi að feigðarósi kyrrsetunnar. Það þarf að bregðast við. Það er markmið okkar í Frjálslynda flokknum að taka til í öllum málaflokkum hins íslenska stjórnkerfis. En til þess þurfum við umboð frá kjósendum. Nýir vendir sópa best og engin ástæða fyrir kjósendur að ætla annað en að nýtt fólk sem sest við stjórnvölin geti tekið til hendinni og breytt ýmsu því sem fyrri yfirvöld framkvæmdu eða létu sitja á hakanum. Við þurfum nýja ríkisstjórn og nýjan menntamálaráðherra sem hefur aðra sýn á grunnskólastarfið, verkefnin og viðfangefnin. Ein staðreynd um flesta grunnskóla á Íslandi er að skólahúsnæðið býður ekki upp á það að hægt sé að fullnægja þörf barnanna fyrir hreyfingu og námsskrá grunnskólans ætlar skólafólki ekki tíma til að koma henni við. Þó svo að það séu íþróttasalir og íþróttahús við skóla þá er takmarkað aðgengi að þeim húsum. Þörf fyrir hreyfingu er ekki bara hægt að fullnægja í sérbyggðum íþróttahúsum, heldur má hanna skólahúsnæði með margvíslegum hætti til að koma til mót við þá þörf. Það verður að segjast eins og er að skólahúsnæði á Íslandi er í flestum tilfellum illa hannað og í flestum tilfellum allt of lítið. Meira að sega nýjustu grunnskólarnir í Reykjavík eru alltof litlir og margir nemendur hafðir í skúrum út á skólalóð, -en þeir skúrar kallast lausar kennslustofu. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort slíkt skipulag sé til að þjóna því skólastarfi sem grunnskólafólk er að reyna að byggja upp og viðhalda? Þó svo rekstur grunnskólans sé verkefni sveitarfélaganna, þá fer menntamálaráðherra með öll völd um innihald og umbúnað skólastarfs samkvæmt grunnskólalögum og hann getur tekið á þessum málum, hafi hann þekkingu til, vilja og nennu. Ég segi "nennu" vegna þess að stundum finnst manni að ráðherrar á Íslandi nenni ekki að takast á við grundvallaratriði og vilji helst dvelja í yfirborðsmennskunni og mestur þeirra tími fari í það að vera í sviðsljósinu. Starfsaðstaða grunnskólakennara, -húsnæðismál og fjöldi barna í hverjum bekk- er málefni menntamálaráðherra, -ekki eingöngu sveitarfélagsins, sem rekur grunnskólann. Og ef menntamálaráðherra vill sjá bættan árangur skólastarfs, þá ætti hann að spyrja: - hvaða kröfur skal gera um lágmarksstærð skólahúsnæðis? og einnig: - á ráðherra að láta það óáreytt að sveitarfélögin byggi skóla sem ekki geta hýst þann nemendafjölda sem fyrirsjáanlegt er að sæki skólann næstu 10 til 15 árin? Þannig er þessu háttað hér í Reykjavík, eins og áður sagði og hluti nemenda er hýstur í útihúsum á skólalóðinni. Reykjavíkurborg telur sig vera að spara með þessu óþarfa fjárfestingu, en nú hefur reyndar komið í ljós að kostnaður við viðhald og flutninga á þessum lausum kennslustofum á skólalóðunum, til og frá, slagar hátt upp í kostnað við viðbyggingu sem gæti hýst öll börnin í útihúsunum. Ég sakna þess stundum að grunnskólafólk sjálft leggi fram tillögur um úrbætur á þessu ástandi, vegna þess að það að vera með bekk í einhverjum kofa út á skólalóð getur varla talist samrýmast stefnu skóla um gott skólastarf. Ef hægt er að hafa 10 -11 kennslustofur í skúrum út á skólalóð, ein og gert er t.d. í Rimaskóla í Reykjavík þá má spyrja hvort ekki sé hægt að réttlæta að allir nemendur séu vistaðir í slíkum kofum. Það myndi a.m.k. samkvæmt kenningunni spara Reykjavíkurborg verulega fjármuni. Samkvæmt grunnskólalögum skulu börn læra sund og flest börn fá sundkennslu. Hins vegar eru ekki kennslulaugar við alla skóla og oft á tíðum verið að aka börnunum langar leiði í sundkennslu. Oft hefur maður furðað sig á því, á síðustu alsnægta tímum af hverju ekki eru kennslulaugar við alla skóla. Eitt af markmiðum grunnskólans er að efla sjálfstraust og hæfni barnanna í mannlegum samskiptum. Til þess að ná sem bestum árangri við það viðfangsefni er nauðsynlegt að hafa lágmarksaðstöðu. Þess vegna spyr maður af hverju er ekki byggður fyrirlestrarsalur við hvern grunnskóla. Slíkir salir eru t.d. í gamla Austurbæjarskólanum og í Breiðholtsskóla. Fyrirlestrarsalir eða leikhússalir þjóna svo mörgum greinum skólastarfsins. Þar geta nemendur æft framsögu, flutt leikrit, haldið fyrirlestra og tónleika og haft danssýningar. Svona lagað er víst ekki á könnu þess menntamálaráðherra sem nú situr. Maður hefur ekkert orðið var við það. Flest ungmenni á Íslandi sem komin eru upp úr grunnskólanum eru hamingjusöm og ná vel að höndla hið daglega líf. Þau hafa góða sjálfstjórn og láta nánast ekkert slá sig út af laginu. Önnur ungmenni haf það skítt. Mörg þeirra eiga slæmar minningar frá æskuárum, eiga í erfiðleikum með daglegt líf og leiðast út í ofneyslu vímuefna til að drekkja raunveruleikanum og reyna upplifa áhyggjulausar stundir, þar sem þokukenndur biturleiki grunnskólaáranna víkur eitt augnablik fyrir ímyndaðri mannlegri reisn. Þeir eru margir tapararnir í grunnskólanum. Sömu börnin eru minnt á það með reglulegu millibili að þau séu annars flokks. Þau fá alltaf lægstu einkunnirnar í bóklegu fögunum, -mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Og nú vill menntamálaráðherra aðskilja þá sem hafa góðar einkunnir og þá sem hafa lélegar einkunnir. Hann hefur gefið framhaldskólum heimild til að taka inn nemendur úr 9. bekk grunnskólans. Til að þeir sem hafa góðu einkunnirnar í bóklegu fögunum sleppi nú sem fyrst frá tossunum þá vill hann nú leyfa þeim að hverfa úr grunnskólanum ári fyrr. Næst verða það eflaust 8. bekkingar sem fá að fara fyrr, -eða af hverju skildi það ekki verða úr því 9. bekkingar fá að fara nú. Hver var aftur tilgangurinn með 10 ára skólaskyldu? Það er eins og röksemdirnar fyrir henni gildi ekki lengur með þessum fyrirætlunum menntamálaráðherra. Ég er andvígur þessu. Þrátt fyrir góðar einkunnir í bóknámsfögum geta allir nemendur öðlast meiri félagslegan þroska í grunnskólanum í 10 bekk, -áður en þeir halda á vit framhaldsskólans,- treyst vinaböndin og lært að lífið er ekki eintóm keppni um að koma sér í þægilegt sæt,- eða eigum við að segja að lífið sé ekki eilífur flótti. Nógu mikill er hraði samfélagsins og mikils um vert að kenna ungmennum að draga andann rólega. Grunnskólinn þarf að vera rekinn á forsendum barnanna en ekki þörfum eða kröfum framhaldskólanna fyrir nemendur og kunnáttu þeirra í bóknámsfögum við upphaf framhaldskólagöngu. Sá menntamálaráðherra sem nú situr hafði uppi hugmyndir um að stytta nám til stúdentsprófs. Sú áætlun var afar sérkennileg í ljósi þess að þá þegar gáfu margir framhaldsskólar nemendum kost á því ljúka stúdentsprófi á mun styttri tíma en venja er.
Góði hlustendur. Að síðustu þetta: Það er hægt að þola það að fá aldrei hæstu einkunnirnar í skólanum, en að vera hegnt fyrir það með aðskilnaði við félaga sína er óþolandi. Flokkun barna í betri börn og verri börn er merki um mannvonsku. Aðskilnaður barnanna eða unglinganna þar sem sumir fá að fara fyrr upp úr grunnskólanum til náms í framhaldsskóla er hvorki góður fyrir þá sem fyrr fara eða þá sem eftir sitja. Um leið og við losum okkur við ríkisstjórn þá sem nú situr í kosningunum í vor þá skiptum við um menntamálaráðherra til að stöðva þessa vitleysu alla. Við þurfum ráðherra sem getur bætt skólakerfið án þess að raska stöðugleika þess. Góðar stundir. Kjartan Eggertsson skipar 2. sæti á framboðslista Frjálsynda flokksins í Reykjavík suður. |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.3.2007 | 17:19
Undirbúningur kosningabaráttunnar á fullu
Efstu menn á listum Frjálslynda flokksins halda nú undirbúningsfund á Hótel Hamri fyrir ofan Borgarnes.
Hér er nýtt hótel við hliðina á golfvellinum, mjög vinaleg og góð aðstaða til fundarhalda. Því miður er Guðjón Arnar Kristjánsson formaður flokksins fjarverandi, en hann verður viðstaddur útför sjómannanna sem fórust í fyrri viku í minni Ísafjarðardjúps er báti þeirra hvolfdi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.3.2007 | 11:05
Hefndarþorsti
Nú er hægt að byrja að leita að kynferðisafbrotamönnum í hvaða skúmaskoti sem er, því brot þeirra fyrnast aldrei. Þetta var samþykkt á Alþingi fyrir nokkrum dögum.
Það minnir mig á stríðsglæpamennina sem hafa framið þjóðarmorð, þeir munu víst hvergi hólpnir -alla sína tíð.
Þannig má nú t.d. reyna að finna menn sem einu sinni sem ungir drengir frömdu glæp í saklausum leik, þó þeir hafi sannarlega ekkert illt haft í huga og vissu ekki hvað þeir voru að gera, samanber hinn unga íslending sem í Bandaríkjunum hlaut margra áratuga fangelsi fyrir heimskulegt bernskubrek.
Einhvern veginn finnst manni að tímanum og orkunni Alþingis væri betur ráðstafað í að reyna að setja lög til að koma í veg fyrir glæpi en vera stöðugt að búa til reglur svo hægt sé að leita hefnda.
Góð byrjun væri t.d. að Alþingismenn byrjuðu á að svara því hvort glæpahneigð sé meðfæddur eiginleiki eða áunninn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.3.2007 | 10:18
"Sannar sögur"
Í kjölfar þess að hingað streyma Evrópubúar frá löndum þar sem kaupmáttur er mun lakari en hér, heyrir maður stöðug fleiri sögur af vondri framkomu gagnvart þessu fólki.
Ein er svona:
"Seinni daginn sem hann átti að vinna fyrir mig og klára að setja upp eldhúsinnréttinguna, skynjaði ég að hann var eitthvað svo máttfarinn. Ég spurði hann á minni lélegu ensku hvort hann væri veikur. Hann sagði mér á sinni lélegu ensku að hann hefði ekkert borðað, því hann væri ekki með neinn pening. Ég flýtti mér að smyrja handa honum tvær þykkar samlokur og bauð honum, sem hann þáði með þökkum. Ég sat með honum við elhúsborðið og þá sagði hann mér frá því nærri grátklökkur að hann ætti tvö börn og konu út í Póllandi. Hann sendi mánaðarlega 50.000 krónur heim til fjölskyldunnar og greiddi 40.000 kr. í leigu þar sem hann byggi. Hann hefði lítið meira og alltaf þegar eitthvað kæmi uppá þá þyrfti hann að borga það fullu verði, -eins og þegar hann rak bíl í eigu fyrirtækisins sem hann vinnur hjá utan í timburstafla og rispaði hann. Vinnuveitandinn varð brjálaður og dró viðgerðarkostnaðinn að kaupinu hans. Hann sagðist vera að vinna svart fyrir mig og af þessum 1.500 kr á klukkutímann sem ég ætti að greiða vinnuveitandanum fengi hann 700 kr."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.3.2007 | 14:20
Stjórnmálafræði í Ármúlaskóla
Fór í yfirheyrslu í Ármúlaskóla þar sem krakkarnir spurðu okkur spjörunum úr um afstöðu okkar til utanríkismála, velferðarmála, umhverfismála og menntamála. Við vorum þar þrír, því auk mín voru Sigurjón Þórðarson og Jón Magnússon. Katrín Baldursdóttir kennari spurði hvort við værum karlaflokkur og svöruðum við því bara játandi, -ef menn vildu líta svo á þá væri þeim það heimilt. Það væru þó margar konur í framboði þó þær væru ekki í fyrsta sæti í Reykjavíkurkjördæmunum.
Mér fannst þau hafa mestan áhuga fyrir menntamálunum, -aðstöðu þeirra sjálfra, kostnaði við námið, strætó og leiguíbúðum. Þau spurðu ekki alveg öll og greinilegt að stelpurnar voru ákveðnari í að fá skýr svör.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2007 | 20:47
Væri ekki nær að bæta grunnskólastarfið?
Það mætti halda að Þorgerði Kartrínu menntamálaráðherra hafi liðið illa í skóla. Hún vildi stytta nám til stúdentsprófs og nú vill hún stytta grunnskólann.
Menntamálaráðherra rann á rassin með alsherjar styttingu stúdentsprófsins, enda var það allt óþarfa brölt þar sem fjölbrautaskólarnir buðu þá þegar duglegum nemendum upp á að ljúka námi fyrr en venjan var. Að sögn ráðherra er stytting grunnskólans gerð til að koma til móts við "bráðgera" nemendur eða nemendur sem "skara framúr".
Það er vitað að mörgum börnum líður illa í grunnskólanum, -sérstaklega strákum. Væri ekki nær að bæta grunnskólann og koma til móts við mismunandi þarfir nemenda? Liggur á að ræna börnin tíma hinnar ábirgðalausu æsku? Grunnskólinn á ekki að snúast um að búa nemendur undir nám í framhaldsskóla, heldur alhliða félagslegan- andlegan- og líkamlegan þroska.
Vonandi sér menntamálaráðherra að sér.
Er ekki miklu verðugara verkefni að koma því í kring að öllum börnum líði vel í grunnskólanum?
13.3.2007 | 15:45
Auðlindafrumvarpinu ekki ætlað að hrófla við fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Við fengum það beint í æð frá framsóknarmönnum í morgunútvarpi RÚV í dag, að "auðlindafrumvarpinu er ekki ætlað að hrófla við fiskveiðistjórnunarkerfinu". Þetta sagði þingmaðurinn Guðjón Ólafur Jónsson og undir það tók Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Maður spyr: Til hvers er þá þetta auðlindafrumvarp ríkisstjórnarinnar ef það á engu að breyta um nýtingu auðlindanna? Þeir sögðu í sama viðtali að Alþingi geti sett almenn lög og tímabundin um nýtingu auðlinda, eftir og ef auðlindafrumvarpið verður samþykkt. Þá er aftur spurt: Er þá eitthvað gagn að ákvæði í stjórnarskrá um nýtingu auðlinda?
Ef ákvæði í stjórnarskrá um auðlind þjóðarinnar segir ekki til um hvernig með hana megi fara þá er slíkt ákvæði einskis virði og bara til óþurftar.
Það er alveg ljóst að auðlindafrumvarpinu var ætlað að slá ryki í augu almennings.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)