Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Evran er leiðin út úr vandanum

Leiðin út úr efnahagsvandanum er að nota sömu mynt og helstu viðskiptaþjóðir okkar, -en þær nota evru.  Öðrum þjóðum kemur það ekki við hvort við notum evrur í viðskiptum innanlands.  Það er engin ástæða til að óttast að notkun okkar á evrum hér innanlands trufli verslunarsamskipti okkar við aðrar þjóðir.  Miklu fremur getum við reiknað með að notkun okkar á evrum á innanlandsmarkaði laði að erlent fjármagn.  Það gæti jafnvel leitt til þess að erlendir bankar myndu vilja hefja starfsemi hér og endurfjármagna íbúðarhúsnæði á Íslandi og þannig gæti almenningur losað sig við okurlán íslensku lánastofnananna.  Þá þyrftum við ekki að bíða eftir að íslensk stjórnvöld gerðu eitthvað í málinu, -hvenær getum við t.d. reiknað með þau afnemi hina óréttlátu verðtryggingu íbúðarlána?
mbl.is Allt opið í gjaldeyrismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

(ó)Frelsið er yndislegt

"Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil" segir í þekktum dægurlaga texta.  Ríkisstjórnin ætlar að skreða frelsið í gjaldeyrismálunum í 2 ár.  Nú verður krónunni "fleytt" og áætlar ríkistjórnin að lögin muni koma í veg fyrir algjört hrun krónunnar.

Ríkisstjórnin er að reyna að gera eitthvað og vill  ekki bara sitja hjá aðgerðalaus eins og hún gerði framan af árinu, þar til hún setti neyðarlögin og réðst á bankana og rústaði þá.

Hvað kemur svo út úr þessu öllu brambolti hennar?  Nær hún að koma í veg fyrir stórhækkaðar skuldir heimila,  -rekstarfjárkreppu fyrirtækja,  -fjöldagjaldþrot fyrirtækja og heimila,  -atvinnumissi þúsunda,  -stöðvun framkvæmda við uppbyggingu nýrra íbúðahverfa, menningarstarfs og samgöngumannvirkja,  -frestun á stóriðjuframkvæmdum,  -stórhækkað innflutningsverð á matvöru og annarri nauðsynjavöru,  -að áform um uppbyggingu nýrra hátæknifyrirtækja í samvinnu við erlenda aðila verði fyrir borð borin?

Þessi listi er ekki tæmandi.  En ríkisstjórnin ætlar að stjórna þessu öllu og hefur sagt að hún ætli að sjá til þess að ekkert af þessu rætist. 

Það hefur verið sagt að grundvöllur skynseminnar sé auðmýktin.  Það fer lítið fyrir því að ríkistjórn Íslands beygi sig í auðmýkt fyrir þeirri staðreynd að hún hefur ekki komið í veg fyrir þau vandræði sem við erum lent í.  Hún var ekki hæf til að koma í veg fyrir að við lentum í þessar stöðu, en hún segist ætla að kom okkur úr henni, "hvað sem það kostar" eins og ráðherrarnir hafa orðað það.  Það væri slæmt ef eitthvað af þessari upptalning hér að framan yrði staðreynd.

Og nú er það ófrelsið í gjaldeyrisviðskiptum sem á að bjarga þjóðinni.  Öðru vísi mér áður brá.


mbl.is Nýjar gjaldeyrisreglur í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flækjustig stjórnsýslunnar villir mönnum sýn.

Já, nú erum við á beinu brautinni, -er það ekki?  Búið að bjarga sparifénu sem Bretar, Hollendingar, Belgar og Þjóðverjar áttu í hinum fyrrum íslensku bönkum.  Er þá ekki kreppan búin?

Ríkisstjórnin kann að taka lán.  En hvað kann hún annað?  Hún ætlar að opna fyrir óhindruð gjaldeyrisviðskipti og sjá til hvort og hversu mikið íslenska krónan fellur.  Svo ætlar ríkisstjórnin að sjá til hvort krónan styrkist aftur.  En ef hún styrkist ekki aftur þá hefur ríkisstjórnin engin ráð, að minnsta kosti hefur hún ekki sagt okkur til hvaða ráða hún ætlar þá að taka.  Þeir sem tóku lán í erlendri mynt fyrir daga bankahrunsins og nú sitja uppi með lán á tvöföldu verði, gætu alveg eins setið uppi með lánin sín á fjórföldu verði þegar upp er staðið.  Það eru nefnilega engar takmarkanir fyrir því á Íslandi hvernig hægt er að fara með fólk.  Smáskammtalækningar ríkisstjórnarinnar sem kynntar hafa verið á undanförnum dögum hafa ekkert að segja til að bjarga fólki sem hefur klafa þessara lána að bera.

Núverandi ríkisstjórn er ráðþrota.  Við þurfum nýja ríkisstjórn sem hefur kjark til að breyta fjármálakerfinu.  Fyrsta skrefið er að innkalla íslensku krónuna í skiptum fyrir evrur á gengi sem var í vikunni fyrir yfirtökuna á Glitni.  Það er það skásta sem við getum gert til að koma okkur út úr vandanum.  Engin þjóð getur bannað okkur að nota evrur á íslenskum markaði.  Og ekki hafa þjóðir heims áhyggjur af notkun okkar á evrunni í alþjóðaviðskipum, því hún er hvort sem er þegar í notkun í öllum okkar viðskiptum við útlönd. 

Því miður er flækjustigið í íslenskri stjórnsýslu svo mikið að þeir sem þar starfa sjá aldrei til lands.  Svo eru einfaldar lausnir bannorð hjá hinu opinbera.


mbl.is Þjóðverjar lána Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þannig ætlar ríkisstjórnin að bjarga þjóðinni.

Þau eru þá þrátt fyrir allt svona góð, -þau ætla að lækka launin sem þau fá úr ríkiskassanum.  Hér áður fyrri á öldum gátum menn keypt sér aflátsbréf hjá kirkjunnar mönnum og voru þar með kvittir fyrir allar misgjörðir sínar.  Ætli þeim Geir og Ingibjörgu líði eins?

Þetta er ljóta dellan, -eins og það bjargi einhverju að laun örfárra embættismanna séu lækkuð um nokkrar krónur.  Og hver á að fá þessar krónur?  Kannski þeir sem hafa tekið gengistryggð lán og sitja uppi með þau á tvöföldu verði?

Við þurfu að losna við hið spillta lið Sjálfstæðisflokksins og vina þeirra, en liður í því er að taka upp aðra mynt, þannig að hægt sé að eiga viðskipti óháð krumlum bláu handarinnar.  Burt með ríkisstjórnina, -burt með hinn ógeðslega spillta Sjálfstæðisflokk.


mbl.is Óska eftir launalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búfénaður á beit.

Ósköp er dapurt að lesa fréttir af sjávarútvegsráðherrum Evrópusambandsins gera samkomulag sem byggist á því að líta á fiskinn í sjónum sem búfénað á beit á ræktuðu landi. Smáfiskur er óvart bara ekki það sama og eldiskálfar.

Það eru væntanleg einhverjir "hámenntaðir" sérfræðingar sem hafa gefið þeim þau ráð að stækka möskvana.  Því miður er margt óljóst um stærð fiskistofna og æti og afföll af ýmsum völdum á hafsvæðum heimsins.  Samkomulag sem þetta getur alveg eins leitt til þess að minna verði hægt að veiða af þorski en ella á næstu árum og áratugum.

Sóknarstýring er lausnarorðið.  Það fræðiorð ætti ekki að vera ókunnugt ráðherrum sem búa lengst inn á meginlandinu, því þau fræði eru t.d. grundvöllur reksturs nytjaskóga og ákvarðana um beitarálag.  Þeir vita að það árar misjafnlega og þeir taka væntanlega mið af því við gróðurnýtingu.


mbl.is Samkomulag um vernd þorskstofnsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðalaus ríkisstjórn.

Hvað gerir ríkisstjórnin nú, þegar allir þeir sem sögðust ætla að lána okkur vísa hver á annan og segja: "Hann þarf að byrja að lána fyrst"?

Ráðherrar ríkistjórnar Íslands hafa haldið því fram að okkur sé ekki heimilt að gera hvað sem er og að við þurfum að koma fram af fyllstu kurteisi við aðrar þjóðir.  Við megum ekki afpanta heræfingu bretanna, -við megum ekki benda þeim á að þeir hafi eyðilagt innlánsreikninga Landsbankans í Bretlandi og geti því hirt skaðann sjálfir, -við megum ekki taka upp á því að nota evruna einhliða því þá verði þjóðir heimsins svo hneykslaðar á okkur.  Þannig eru rökin hjá þessari ríkisstjórn, allt byggt á hugmyndum um kurteisi og heiðarleg samskipti á sama tíma og bretar yfirtaka banka í eigu íslendinga og beita til þess hryðjuverkalögum, Alþjóðagjaldeyrisvarasjóðurinn lofar afgreiðslu láns á ákveðnum degi en svíkur það oftar en einu sinni með miklum skaða fyrir íslenskt efnahagslíf og Evrópuþjóðir draga lappirnar við að veita okkur aðstoð þrátt fyrir hástemmd loforð um annað.

Hver er lærdómur okkar íslendinga af þessu?   Hann sá að hver þjóð og hver stofnun hugsar bara um "rassgatið" á sjálfum sér.  Við þurfum að fara að hætta öllu kurteisishjali.  Fyrir almenning á Íslandi væri besta aðgerð ríkisstjórnar að skipa Seðlabankanum að innkalla allar íslenskar krónur í skiptum fyrir evrur á gengi sem var í gildi vikuna fyrir yfirtöku Glitnis banka.  Við getum svo í rólegheitum leyst úr þeim vanda sem bankahrundið olli í samskiptum við aðrar þjóðir.  Með einhliða upptöku evru myndu verslunarviðskipti komast í samt lag á örfáum dögum og veltan í samfélaginu færi á skrið á ný.


mbl.is Staðan er grafalvarleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin veldur ekki hlutverki sínu.

Satt að segja verður maður allta meira og meira hissa eftir því sem dagarnir líða og ríkisstjórnin tjáir sig um hlutina.  Nú segist Björgvin Sigurðsson viðskiptaráðherra ekki hafa vitað neitt um stöðu fjármálakerfisins fyrr en í lok ágúst og að fjármálaeftirlitinu sé um að kenna að hafa ekki látið sig vita.  Viðskiptaráðherra sem situr bara og veit ekki neitt er ekki til neins.  "Talið bara við þá", segir hann svo.

Forsætisráðherra talaði af sér í sjónvarpinu í kvöld, 8. nóv. þegar hann sagði það sína skoðun að bönkunum hefði ekki verið bjargandi hvort sem var og niðurstaðan alltaf orðið sú sama hverjar sem aðgerðirnar hefðu verið.  Hann var þá spurður um fjárveitinguna til Kaupþings sem átti að vera til að bjarga bankanum og eins var hann spurður hvort aðför bresku ríkisstjórnarinnar hefði þá verið eðlileg og nauðsynleg, -en vafðist tunga um tönn.  Forsætisráðherra getur ekki leyst úr málum.

Þessi ríkisstjórn hefur ekki valdið hlutverki sínu, hvorki fyrir bankahrunið eða eftir það og á að fara frá.  Það er vilji fólksins.


mbl.is Ekkert land hrunið hraðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kröfur um aðra mynt.

Geir H. Haarde segir "útlitið dökkt og miklir erfiðleikar framundan".  Geir H. Haarde forsætisráðherra vill halda í íslensku krónuna.  Hann hefur sagt að ekki sé tímabært að semja um upptöku evru.  Þar stendu hnífurinn í kúnni.  Á meðan Geir forsætisráðherra skynjar ekki að íslenska krónan er ónothæf í viðskiptum við aðrar þjóðir þá mun hann halda áfram að komast að þessari niðurstöðu að "útlitið sé dökkt". 

Alþjóðagjaldeyrisvarasjóðurinn tvístígur og getur ekki ákveðið sig, hvort hann ætlar að lána okkur eða ekki.  Best væri að stjórn sjóðsins myndi tilkynna íslendingum að hún treysti ekki því að íslenskt efnhagsumhverfi næði að rétta úr kútnum með íslenska mynt í farteskinu og að hún mæltist til þess að íslenska krónan yrði aflögð gegn því að sjóðurinn beitti sér fyrir þeirri skyndilausn að íslendingar fengju strax að nota evruna og þá gegn því að íslendingar gengju strax til samninga við ESB um inngöngu í sambandið og um skyldur íslenska ríkisins vegna notkunar á evrunni.

Fyrr en við höfum samið við Evrópuþjóðir um myntbandalag og upptöku nýrrar myntar til skemmri tíma eða langtíma þá verður "útlitið dökkt og miklir erfiðleikar framundan".


mbl.is IMF-beiðni frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsanavilla menntamálaráðherra.

Er þar einhver sem bannar Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra að stofna á sinni kenntölu útvarpsstöð?  Er þar einhver sem gæti komið í veg fyrir það?  Er þar einhver sem gæti komið í veg fyrir heiðarlega samkeppni um fjármagn frá hlustendum?

Ekki er það Jón Ásgeir, -hans fjölmiðlar eru allir í frjálsri áskrift.  Er það kannski Ríkisútvarpið sem hugsanlega gæti komið í veg fyrir að Þorgerður Katrín gæti stofnað og rekið útvarpsstöð í heilbrigðri samkeppni?

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segir "óhjákvæmilegt að tryggja stöðu Ríkisútvarpsins ef aukin fákeppni verði á fjölmiðlamarkaði".  Þessi orð hennar eru hugsanavilla á hæsta stigi.  Þau eru það sem kallað er; öfugmæli.  Það er nefnilega áskrift Ríkisútvarpsins að skattpeningum borgaranna sem leiðir til þess að það er varla hægt að stunda heilbrigðan útvarpsrekstur.  Og það er ekki víst að Jón Ásgeir standi í þessu brölti sínu með fjölmiðlafyrirtækin til eilífðarnóns og þá verður ekkert eftir nema Ríkisútvarpið. 

Jón Ásgeir verður ekki sakaður um að hafa beitt áhrifum sínum til að þagga niður í þeim sem hafa verið ósáttir með framgöngu hans í íslensku viðskiptalífi.  Það er hins vegar ljóst að Ríkisútvarpið hefur verið misnotað af stjórnvöldum í gegnum árin, en þar á bæ hefur löngum verið venjan að þagga niður í stjórnarandstöðunni og sérvöldum einstaklingum sem eigi eru stjórnvöldum þóknanlegir.


mbl.is Rosabaugur Jóns Ásgeirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorgerður Katrín, -veit hún ekki hvað hún vill?

Menntamálaráðherran segir að það séu kominir nýir tímar. Það væri ágætt ef ráðherran vildi segja okkur af hverju við ættum að ganga í ESB.  Þarf hún að fá leyfi til þess?  Er hún hrædd um að verða hrakin úr Sjálfstæðisflokknum ef hún hefur sjálfstæða skoðun?  Kannski þjónar það ekki hennar persónulegu hagsmunum að tala hreint út.
mbl.is Tilbúin að endurskoða afstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband