Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Nýja ríkisstjórn?

Ráðamenn þjóðarinnar eru ábyrgir fyrir þeirri stöðu sem upp er komin.  Þeir virðast hins vega ekki ætla að axla þessa ábyrgð.  Talið er að 70% fyrirtækja landsins sjái fram á rekstrarstöðvun.  Flest allar ákvarðanir stjórnvalda eru vanhugsaðar.  Það er eins og þeir hafi aldrei heyrt orðatiltækið "í upphafi skal endirinn skoða".

Við þurfum nýja ráðamenn.  Við þurfum kosningar strax.  Við þurfum ríkisstjórn sem semur við ESB um aðild að myntbandalagi Evrópu.  Til bráðabirgða þurfum við að semja við Noreg um fá að norsku krónuna, -við þurfum engan að spyrja um það nema Norðmenn.  Samfylkingin þarf nú að viðurkenna að þetta gangi ekki lengur og á að taka þá ákvörðun að slíta stjórnarsamstarfinu.  Þeir munu ekki tapa á því.


mbl.is Engin áhrif á Iceland Express
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur á réttu að standa.

Björgólfur hefur á réttu að standa.  Útrásarmennirnir verða varla sóttir til saka fyrir brot á lögum.  Þeir hins vegar munu missa hlutina sína í bönkunum sem ríkisstjórn Íslands yfirtók samkvæmt svokölluðum neyðarlögum.

Nú fáum við gamla tímann aftur, -ríkisbankatímann.  Þá verður aftur  byrjað á því að hygla flokksfélögum og útiloka stjórnarandstæðinga frá lánafyrirgreiðslu.  Mannlegt eðli hefur nefnilega ekkert breyst.  Nú er samkeppnisþátturinn horfinn úr bankastarfseminni og því fáum við aftur "blíantsnagarana" sem bíða eftir símhringingum frá pólitíkusum um það hverjum megi lána og hverjum ekki.  Engin samkeppni verður um vexti, enda verða þeir fastsettir með tilskipunum frá hinu opinbera.  Engin samkeppni verður um að veita góða þjónustu, því hún er hún er horfin úr bönkunum gróðavon hluthafanna.  Í raun hefur heil atvinnugrein verið lögð niður og í staðinn er kominn önnur sem hefur önnur markmið og annað eðli og þjónar að stærstum hluta öðrum tilgangi en sú fyrri.


mbl.is Krónan stærsta vandamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýmislegt verður sett á ís.

Þrátt fyrir samning við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verður ekki hægt að affrysta allt það sem tapast hefur í þessu efnahagsgjörningaveðri.  Og margt að því sem fólk telur sjálfsagðan hlut í dag verður sett á ís á næstu mánuðum.  T.d. má ætla að nú þegar hafi meirihluti þjóðarinnar endurskipulagt utanlandsferðir sínar næstu misserin, -þannig má segja að þær séu komnar á ís.  Fleira fylgir á eftir.

Það var slæmt að ríkisstjórnin skyldi ekki nota tækifærið og semja um það við ESB, í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að íslendingar tækju upp evru strax, til að koma á jafnvægi og friði og ró í efnahagslífinu.  Úr því sem komið er mun íslenska krónan verða til mikillar óþurftar í viðskiptum okkar við útlönd og mun hefta frjálsa atvinnustarfsemi, nýsköpun og þeir greinar sem stunda útflutning.

Vanda okkar hefur verið líkt við að þjóðarfleyið hafi siglt upp á sker.  Það er ljóst að þetta fley í líki íslensku krónunnar er svo laskað að það verður aldrei aftur almennilega sjófært.  Við þurfum nýtt skip úr betra efni.  Við þurfum evru í staðinn fyrir krónuna.  Þá verðum við aftur fær í flestan sjó.


mbl.is Innstæður frystar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er best að verja kröftunum?

Hvað er að því að borga 1.900 þús. kr. í mánaðarlaun ef bankastjórarnir eru á annað borð þriggja manna makar?  Af hverju eyðir Jóhanna Sigurðardóttir tíma sínum í þetta mál?  Ef hún vill þjóðarhag sem mestan þá á hún að nota tímann í annað.  T.d. spillingu sem grasserar á vettvangi sveitastjórna í þessu landi, þar sem fjármunum er úthlutað eftir geðþótta til vina og vandamanna.  Þar erum við að tala um milljarða.  En það vill svo til að hún er yfirmaður allra sveitastjórna í landinu.
mbl.is Bankastjórarnir með of há laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins, loksins.

Loksins sýndi Björgvin G. að vera hans í embætti viðskiptaráðherra hefði einhvern tilgang sem skiptir máli.  Hann fær stóran plús.  Svo er bara að fylgja málinu eftir og leyfa engum að komast upp með múður.


mbl.is Bankar frysti myntkörfulán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viltu vita?

Viðskiptaráðherra hefur lítið geta upplýst þjóðina um gang mála.  Það er eins og hann viti lítið eða þori ekki að segja frá af ótta við að verða skammaður.  Forsætisráðherra gerir það ekki heldur og svo virðist sem hann þurfi ávallt að spyrja Davíð fyrst hvort hann megi segja frá og hvað hann megi segja.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru ráðvilltir, vissu ekki eða skyldu ekki hversu alvarlega staða efnhagmálanna var og vita ennþá ekki hvernig þeir ætla að lenda málinu.

Það er bara einn sem er viss í sinni sök; það er Davíð Oddsson.  En því miður þá hefur hann rangt fyrir sér og afleiðingarnar eru eftir því.


mbl.is Stjórnmálin biðu hnekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mat Seðlabankans byggt á geðþótta.

Á sama tíma og Geir H. Haarde, forsætisráðherra spáir í það hvernig best sé að bregðast við ástandinu, leikur aðalbankastjóri Seðlabanka Íslands lausum hala og ræðst nú á restina af fjármálafyrirtækjum landsins.

Það fer að verða auðvelt að trúa því að Sjálfstæðisflokkurinn með Davíð Oddsson í fararbroddi sé með plan.  Planið gangi út á það að sölsa undir sig alla fjármálastarfsemi í landinu og leggja í hendurna á útvöldu fólki.  Skítt með þjóðarhag.  Og burt með alla sem ekki geta gengist undir dynti bankastjórans.

Nú hefur Seðlabankinn krafið fjármálafyrirtæki um ný veð vegna eldri lána.  Seðlabankinn, með sínum frábæra reiknistokki hefur komist að þeirri niðurstöðu að opinbert verðmæti verðbréfa fyrirtækjanna, sem liggja að veði vegna lána frá bankanum sé akkúrat 50% lægra í dag en það var fyrir nokkrum dögum.  Bara allt í einu, -á einum degi- eru þau felld um helming.  Og -svo takktinum sé haldið í leikriti Seðlabankans þá skulu fyrirtækin reiða fram ný veð á innan við sólarhring.  Því miður bendir þessi slétta tala, 50% til þess að hér sé ekki faglega að málum staðið, heldur sé um geðþóttaákvörðun að ræða. 

Bankinn segir að bréfin hafi verið að rýrna á undanförnum vikum.  Sé það rétt þá er einkennilegt að bregðast við með þessum hætti.  Því miður þá virðist engin stofnun eða fyrirtæki í þessu landi geta starfað af sæmilegu öryggi þar sem krumlur fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra landsins Davíðs Oddssonar koma nálægt.  Virðing eða upplýst umræða virðast ekki vera til í orðabóka þessa manns og bitnar jafnt á fyrirtækjum sem einstaklingum og um leið á almenningi. 

Ætli Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn viti af þessu?


mbl.is Vonandi niðurstaða fljótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við þurfum nýtt Alþingi.

Í þeim hörmungum sem við nú upplifum þurfum við að fá að velja nýtt fólk á Alþingi og við þurfum nýja ríkisstjórn.  Sú ríkisstjórn sem nú hefur völdin er á villigötum þegar hún trúir því að íslenska krónan geti staðið styrkum fótum, eins og haft er eftir Össuri Skarphéðinssyni í þessari frétt.  Krónan mun aldrei geta staðið styrkum fótum eftir það sem á undan er gengið, -ef við á annað borð ætlum að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi.

Við þurfum nýtt Alþingi sem getur sett lög um að sjávarútvegfyrirtæki skuli hafa tímabundinn veiðirétt og að sótt skuli úr íslenskri höfn, lög um hvaða rétt landeigendur eigi til nýtingar lands og að þeir nýti landið og lög um að auðlindir landsins séu eign þjóðarinnar og óseljanlegar.  Helstu auðlindir eru:  fiskurinn í sjónum, jarðhiti, námur, vatn, vatnsföll og afl vinds og sjávar.  Að því loknu skal gengið til viðræðna um inngöngu í Efnahagsbandalag Evrópu, en samið um það að íslendingar fái strax og án fyrirvara að taka upp og nota evru í milliríkjaviðskiptum sem og á innanlandsmarkaði.


mbl.is Ríkisstjórnarfundi lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Megum við fá að vita.

Gott væri að fá að vita hvað ríkisstjórnin hefur samið um við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.  Eða á kannski að leggja samningin fyrir Alþingi á einni nóttu og samþykkja án umræðu eða upplýsinga um afleiðingar hans.
mbl.is Rangt að skuldbinda ófædd börn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frystum útreikning höfuðstóls lána.

Ef ríkisstjórnin vill afsanna kenningar Roberts Z. Aliber, þá þarf hún að sýna í verki að hún geti gert ráðstafanir vegna þess vanda sem almenningur er kominn í.

Þegar fólk tók lán í erlendri myntkörfu, var það að reyna að spara sér að greiða hina sjálfvirku verðtryggingu sem er á flestum öðrum lánum í íslenskri mynt, -verðtryggingu sem tekur nánast eingöngu tillit til hags lánveitandans, en ekki hagtalna í lífi fólks.   Ef lántakendur hefðu mátt vita að slík uppákoma, sem við nú höfum upplifað gæti átt sér stað hefði engin látið sér detta í hug að taka myntkörfulán.  

Verðtryggðu lánin eru tekin í þeirri von að í reiknitölum verðtryggingarinnar sé tekið tillit til greiðslugetu fólks almennt og efnahags. Nú, þegar verðbólgan er svo mikil að hún mælist í tugum prósenta og gengi krónunnar er hrunið, er nauðsynlegt að stöðva útreikning verðbótaþáttarins á verðtryggðum lánum og frysta upphæð höfuðstóls.  Það var ekki ætlunin með verðtryggingunni að höfuðstóll lána myndi undir einhverjum kringumstæðum hækka svo mikið að hann færi fram úr almennu verðlagi eða verðmæti þeirra hluta sem eru í veði fyrir lánum.

Það ætti því að vera einn hluti að efnahagsaðgerðum ríkisstjórnar að frysta útreikning verðbótaþáttar lána í íslenskum krónum og gefa fyrirmæli um að eingöngu skuli greiddir vextir af myntkörfulánum þar til gengi íslensku krónunnar hefur verið fastsett eftir samninga við erlenda seðlabanka eða að gengið hafi náð því verðmæti sem var daginn fyrir yfirtöku ríkisins á Glitnisbanka.


mbl.is Stjórnvöld skilningslaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband