Frystum útreikning höfuðstóls lána.

Ef ríkisstjórnin vill afsanna kenningar Roberts Z. Aliber, þá þarf hún að sýna í verki að hún geti gert ráðstafanir vegna þess vanda sem almenningur er kominn í.

Þegar fólk tók lán í erlendri myntkörfu, var það að reyna að spara sér að greiða hina sjálfvirku verðtryggingu sem er á flestum öðrum lánum í íslenskri mynt, -verðtryggingu sem tekur nánast eingöngu tillit til hags lánveitandans, en ekki hagtalna í lífi fólks.   Ef lántakendur hefðu mátt vita að slík uppákoma, sem við nú höfum upplifað gæti átt sér stað hefði engin látið sér detta í hug að taka myntkörfulán.  

Verðtryggðu lánin eru tekin í þeirri von að í reiknitölum verðtryggingarinnar sé tekið tillit til greiðslugetu fólks almennt og efnahags. Nú, þegar verðbólgan er svo mikil að hún mælist í tugum prósenta og gengi krónunnar er hrunið, er nauðsynlegt að stöðva útreikning verðbótaþáttarins á verðtryggðum lánum og frysta upphæð höfuðstóls.  Það var ekki ætlunin með verðtryggingunni að höfuðstóll lána myndi undir einhverjum kringumstæðum hækka svo mikið að hann færi fram úr almennu verðlagi eða verðmæti þeirra hluta sem eru í veði fyrir lánum.

Það ætti því að vera einn hluti að efnahagsaðgerðum ríkisstjórnar að frysta útreikning verðbótaþáttar lána í íslenskum krónum og gefa fyrirmæli um að eingöngu skuli greiddir vextir af myntkörfulánum þar til gengi íslensku krónunnar hefur verið fastsett eftir samninga við erlenda seðlabanka eða að gengið hafi náð því verðmæti sem var daginn fyrir yfirtöku ríkisins á Glitnisbanka.


mbl.is Stjórnvöld skilningslaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Landfari

Þú segir: "Það var ekki ætlunin með verðtryggingunni að höfuðstóll lána myndi undir einhverjum kringumstæðum hækka svo mikið að hann færi fram úr verðmæti þeirra hluta sem eru í veði fyrir lánum eða almennu verðlagi."

Hvað hefurðu fyrir þér í þessari fullyrðingu? Þetta fer algerlega eftir því hvað þú gerir við peninginn sem þú tekur að láni og til hve langs tíma lánið er.

Hvað áttu við með því "að frysta útreikning verðbótaþáttar lána í íslenskum krónum" Ertu að tala um að hætta að reikna verðbótaþáttinn, sleppa honum úr dæminu í tiltekinn tíma? Ertu að leggja til að því verði mætt með hækkuðium vöxturm eða eiga vextir að vera óbreyttir og hinn almenni sparifjár eigandi að bera skaðann af röngum fjárfestingum lántakandans?

Það er nóg af lántakendum hér á landi en gríðarlegur skortur á sparifjáreigendum. Það er okkur alger nauðsyn að fá fleiri til að spara og færri til að eyða um efni fram. Áratugum var það svo hér að þeir sem spöruðu sáu spariféið sitt brenna upp í verðbólguni. Núna, meira en tuttugu árum eftir að fólk gat farið að spara án þess að tapa næstum öllum sínum sparnaði er enn skortur á sparifjáreigendum.

Engu líkara en þú sért sammála Jóni Magnússyni að koma algerlega í veg fyrir að skynsamlegt verði að leggja fyrir.

Landfari, 20.10.2008 kl. 10:03

2 Smámynd: Kjartan Eggertsson

Sæll Landfari.

Flestir þeir sem eiga verðtryggðar skuldir eru íbúðaeigendur.  Það má kannski segja að þeir séu að eyða um efni fram, en af sárri reynslu safna íslendingar ekki eða spara fyrir útgjöldum sínum og fjárfestingum í húsnæði. Á árum áður brann sparnaður upp fyrir tilstilli stjórnvalda sem með reglubundnum hætti felldu gengi krónunnar.  Minnug þess hvernig farið hefur fyrir almenningi, sem átt hefur verðtryggðar skuldir á fyrri tímu óðaverðbólgu,væri skynsamlegt að frysta sjálfvirkar verðhækkanir á höfuðstól lána þegar svo hrikalegar hamfarir í efnhagskerinu ríða yfir sem við upplifum nú.  Það er eflaust rétt hjá þér að það sé skortur á "sparifjáreigendum", en í raun er sparifé íslendinga bundið í steinsteypu, enda hefur hún reynst besti geymslustaðurinn.

Kjartan Eggertsson, 20.10.2008 kl. 10:25

3 Smámynd: Landfari

Þú vilt semsagt endurtaka leikinn núna og brenna upp sparnað einstaklinga aftur. Gera endanlega útaf við þá hugsun að það sé skynsamlegt að spara. Eyðileggja með einu pennastriki það sem áunnist hefur á síðustu 30 árum í að byggja upp trú almennings á skynsemi þess að leggja fyrir.

Það er að vísu rétt hjá þér að það þarf að gera þetta líka ef ríkistjórninni á að takast að klúðra öllu sem hægt er að klúðra í viðbrögðum við þessari efnahagsvá sem við stöndum í. Ágúst Einarsson heldur því fram, og er reyndar ekki einn um það, að ríkistjórnin hafi þegar klúðrað öllu sem hægt var að klúðra en honum hefur greinilega yfirsést þetta atriði.

Það er trúlega rétt fullyrðing hjá þér að flestir þeir sem eiga verðtryggðar skuldir eru íbúðareigendur en stór hluti skuldanna, þótt með veði sé í fasteign, er tilkominn af öðrum ástæðum en íbúðakupum. Stærstur hluti þeirra skulda sem til er kominn af íbúðakaupum er innan þeirra marka að íbúðin hefur hækkað í það minnsta til jafns við lánin. Það eru bara þeir sem eru alveg núybúnir að kaupa íbúðir sem eru að lenda í því að íbúðin lækkar en skuldirnar hækka. Ef þú ætlar að láta sparifjáreigendur greiða niður skuldir allra er þá ekki eðliegt og sanngjarnt að þeir eignist gróðann sem þeir sem keyptu fyrir fimm árum hafa haft af íbúðakaupum sínum.

Þú ert kanski meiri reikningssnillingur en ég en ég treysti mér allavega ekki til að reikna þetta út. Hitt er augljóst að það er engin sanngirni í að sparfjáreigendur greið tap af fjárfestingum skuldara en eigi þá ekki jafnframt að hirða gróðann þegar svo ber undir. Það þarf ekki mikla reikningskunnáttu til að sjá það.

Landfari, 21.10.2008 kl. 10:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband