Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007
19.4.2007 | 10:39
Íslendingar vinna of langan vinnudag
Eitt af stóru verkefnum nýrrar ríkisstjórnar þarf að vera að auka persónuafslátt og hækka skattleysismörk.
Það er stefna Frjálslynda flokksins að allir geti átt innihaldsríkt líf og notið þeirra gæða sem ríkt samfélag hefur upp á að bjóða. Markmiðið er að allir getir framfleytt sér og sínum fyrir afrakstur venjulegs vinnudags, þ.e.a.s. 40 stunda vinnuviku. Í raun gæti meirihluti launamanna látið það eftir sér, ef ríkistjórnin sem nú situr hefði það sama markmið og skilning.
Til að þetta háleita markmið náist þurfa stjórnvöld að leggja af skattlagningu á þær tekjur sem fólk þarf að hafa til að geta framfleytt sér. Í dag eyðir meðal-kjarnafjölskyldan, hjón með 1.8 barn 445.000 kr. á mánuði . Þetta er hin raunverulega eyðsla eftir skatta. Á sama tíma eyðir heilbrigt einhleypt fólk 198.000 kr. á mánuði eftir að hafa greitt skattana sína. Hvort þetta er sú upphæð sem fólk þarf til nauðþurfta skal ósagt látið, en hún er allavega langt frá þeim skattleysismörkum sem við búum við í dag, sem er um 90.000 kr. Það að hækka skattleysismörkin strax eftir kosningar upp í 112.000 kr. og í 150.000 á næsta kjörtímabili ætti að nálgast þá tölu, eða þau laun sem fólk þarf að hafa til að geta skrimt.
Íslendingar vinna of langan vinnudag. Þeir gera það flestir vegna þess að öðruvísi yrðu þeir fljótlega gjaldþrota. Þar hjálpast margt að; okurvextir og verðtrygging höfuðstóls íbúðalána, dýr rekstur ökutækja vegna lélegra almenningssamgangna, skattpíning ríkisstjórnarinnar samanber 90.000 kr. skattleysismörk og fátækragildra stjórnvalda sem aldraðir og öryrkjar eru hnepptir í hjá lífeyrissjóðunum og almannatryggingakerfinu sem skammta þeim lífeyrir langt undir velsæmismörkum.
Gleðilegt sumar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.4.2007 | 09:23
Bönnum skoðanakannanir
Hvaða tilgangi þjónaði það fyrir einu ári að gera skoðanakannanir og sýna fygli Frjálslynda flokksins í Reykjavík vera 3% svo 5% þá 9% og aftur 6%? Flokkurinn fékk 10.1% atkvæða. Getur það verið að þessar lágu tölur hafi dregið úr einhverjum að greiða flokknum atkvæði sitt? Getur verið að þessar lágu prósentutölur hafi hvatt einhverja til að ljá flokknum atkvæði sitt?
Frá mínum bæjardyrum séð er það alveg skýrt að lágar fylgistölur í könnunum eru ekki hvetjandi fyrir kjósendur. Því miður þá er mannssálin þannig að hún þráir öryggið í félagskap hinna glaðsinnu, en það verða þeir sem fylgja sigurliðinu í kosningunum í vor. Og hvert er sigurliðið? Það er öruggast að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, því hann er stærstur, verður stærstur eftir kosningar þó svo hann tapi fylgi og flestir andstæðingar hans vilja vinna með honum í ríkisstjórn eftir kosningar samkvæmt skoðanakönnunum.
Skoðanakannanir hafa áhrif á hvaða flokki fólk greiðir atkvæði sitt. Þess vegna á að banna þær samkvæmt lögum mánuði fyrir kosningar. Það myndi ekki einungis halda hópsálinni niðri, heldur einnig auka veg málefnalegrar umræðu í fjölmiðlum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.4.2007 | 09:55
Framsókn og Sjálfstæðisflokkur auglýsa á kostnað borgarbúa
Meirihlutinn í borgarstjórn, framsókn og sjálfstæðismenn auglýsa stefnu sína í umhverfismálum í tveggja síðna auglýsingu í öllum dagblöðunum og heitir hún "Græn skref í Reykjavík". Auglýsing þessi hefur ekkert gildi, -enginn á að svara henni og í engu er verið að vara borgarbúa við eða kalla fram viðbrögð. Hún er ekki tilkynning um eitthvað sem búið er að ákveða eða ræða í nefndum borgarinnar og hún er ekki kosningaloforð því það eru ekki sveitarstjórnarkosningar framundan.
Hvað er hún þá? Svarið er augljóst. Þessi auglýsing er framlag framsóknar og sjálfstæðismanna í borginni í kosningaáróðri ríkistjórnarinnar, sem þarf á því að halda að svara hinn vinsælu umhverfisumræðu á einhver hátt.
Allir flokkar hafa málefni að berjast fyrir og meirihlutinn í borginni hefur málefnasamning til að vinna eftir. Að kjörtímabilinu loknu leggur meirihlutinn gerðir sínar fyrir dóm kjósenda. Þá geta þeir auglýst á kostnað flokkanna hvað þeir gerðu vel og hvað þeir ætli að gera næst og þá væri þessi auglýsing um "Græn skref í Reykjavík" eðlileg.
Því miður eru framsóknarmenn og sjálfstæðismenn svo spilltir eftir langa valdatíð í íslenskum stjórnmálum að þeir hafa enga sómatilfinningu. Ef eitthvað væri eftir af þeim eiginleika þá hefðu þeir spurt sjálfan sig hvernig þeir hefðu brugðist við í sporum minnihlutans.
Ég tel að hér sé um að ræða misnotkun á almannafé og brot á stjórnsýslulögum, en þau byggjast m.a. á lögum um mannréttindi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2007 | 21:28
Frjálslyndi flokkurinn í lykilstöðu
Allt bendir til að Frjálslyndi flokkurinn muni eiga þann möguleika að vera þátttakandi í næstu ríkisstjórn. Samkvæmt skoðanakönnunum rambar núverandi ríkisstjórn á barmi lítils meirihluta og riðar að öllum líkindum til falls. Samkvæmt einföldum líkindareikningi sýna skoðanakannanir ávallt stærri flokka með meira fylgi en þeir fá í kosningum og minni flokkana með minna fylgi þegar upp er staðið.
Magnús Þór Hafsteinsson benti réttilega á það í viðtali við Morgunblaðið (sjá hér) að Frjálslyndi flokkurin yrði í lykilaðstöðu við að mynda næstu ríkisstjórn. Það er enginn spurning fyrir þá sem eru óákveðnir að styðja Frjálslynda flokkinn, -við munum gera þær breytingar sem íslenskt samfélag þarf á að halda eftir langa spillingartíð núverandi ríkisstjórnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.4.2007 | 22:52
Nýir tímar í nánd fyrir sjávarbyggðirnar?
Um leið og Frjálslyndi flokkurinn hefur samið um þátttöku í næstu ríkisstjórn verður á fyrsta degi opnað fyrir handfæraveiðar smábáta. Þá mun verðmæti eigna íbúa sjávarplássa strax byrja að stíga og nýjir tímar munu upp renna í lífi landsbyggðarinnar. Smá saman munu sjávarbyggðirnar fá til baka veiðiréttindin sem frá þeim voru tekin og þær munu blómstra á ný.
Kvótakerfið er mannanna verk og það er þeirra að afnema það.
7.4.2007 | 12:34
Verðtryggingin er fjötur um fót almennings
Ýmsir vel lærðir talnaspekingar reyna nú að gera lítið úr þeim markmiðum Frjálslynda flokksins að afnema verðtryggingu á bankalánum og hafa áhrif á vaxtaokrið.
Helsta ráð þeirra er að snúa út úr orðum okkar, með því til dæmis að segja að það sé ætlan okkar að setja þak á hversu háir vextir megi vera og svo gera þeir lítið úr markmiðum okkar með því að fullyrða að tal okkar um afnám verðtryggingar sé ætlað að slá ryki í augu kjósenda í aðdraganda kosninga eða að við höfum ekki hugmynd um út á hvað vextir og hagstjórn ganga. Mikið væri nú gott að vera laus við þá ómálefnalega umræðu.
Staðreyndin er sú að lán sem tekin voru fyrir daga verðtryggingar brunnu upp í óðaverðbólgu. En það var ekki bara verðbólgan ein sem olli, heldur fyrst og fremst sú staðreynd að vextir voru ekki frjálsir. Ríkið hélt vöxtunum niðri á meðan verðbólgan geysaði. Þegar verðtryggingin var tekinn upp voru vextir hins vegar gefnir frjálsir þannig að fjármálakerfið umpólaðist, -þeir sem áður höfðu stöðugt tapað höðustólnum í óðaverðbógunni þ.e. eigendur sparifjár og ýmsir sjóðir ríkisins fóru nú að græða, en þeir sem áður græddu á óðaverðbólgunni vegna þess að höfuðstóll lána nánast hvarf á örfáum árum fóru að greiða höfuðstól lána margafaldan til baka. Þessi skipan er enn á þrátt fyrir að Alþingi hafi selt ríkisbankana og bankar séu nú nær allir í eigu frjálsra félagasamtaka, aðeins íbúðalánasjóður er eftir í eigu ríkisins, en um hann eiga að gilda alveg sömu reglur og um aðra lánastarfsemi.
Það er með öllu óeðlilegt að frjáls bankastarfsemi hafi heimildir frá hinu opinbera til að setja íþyngjandi ákvæði um hækkun höfuðstóls láns vegna ófyrirséðra verðbreytinga á einhverju sem lántakandi hefur ekkert með að gera.
Verkefnið er að afnema opinbera stýringar í fjármálheiminum eins og verðtryggingu og hámarks og lágmarksvexti. Reglur á fjármálamarkaði þurfa að vera einfaldar, gegnsæar og öll viðskipti fyrirséð. Verðtryggingin á útlánum íslenskra banka til íslendinga er algjörlega á skjön við slíkar reglur.
Það er einnig verkefni að breyta Seðlabankanum þannig að hann haldi fyrst og fremst utan um gjaldeyrisforða þjóðarinnar, en hafi heimildir til viðskipta á markaði með fjármuni, bæði í heildsölu og smásölu ef séð verður að fjármálaheimurinn, þ.e. bankar og lánastofnanir bergðist hlutverki sínu.
Vaxtaorkrið íslenskra banka, eins og það biritst t.d. í svokölluðum yfirdráttarlánum byggist fyrst og fremst á einokun og samráði íslenskra lánastofnana og lélegu aðgengi íslendinga að erlendum lánastofnunum sem bjóða lán með miklu lægri vöxtum. Til að laga þetta ástand þarf íslenska ríkið að veita íslendingum aðgengi að erlendu lánastofnunum með lagabreytingum auk þess sem koma þarf böndum á samráð bankana, sem óhikað má fullyrða að sé brot á reglum um heiðarlega samkeppni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.4.2007 kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.4.2007 | 11:14
Að fara frjálslega með annara orð.
Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra, Illugi Jökulsson rithöfundur og Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður skrifa greinar sem eru birtar í Morgunblaðinu og Blaðinu í dag. Greinarnar eiga það allar sammerkt að þær fjalla um afstöðu Frjálslynda flokksins gegn óheftu flæði innflytjenda til landsins.
Sveinn Andri er í greininni heiftúðugur í garð Frjálslynda flokksins og segir hann flokkinn "úthúða þeim erlendu ríkisborgurum sem íslenskt atvinnulíf hefur kallað til landsins sem berklasmitandi glæpahunum sem éti lifibrauð íslenskrar alþýðu" :) :( Maður veit eiginlega ekki hvort maður á að brosa eða gráta þegar maður les svona útúrsnúninga eftir hæstaréttarlögmann sem maður hefur hingað til talið að vilji láta taka sig alvarlega.
Magnús Stefánsson er kurteis að vanda. Hann segir Frjálslynda flokkinn "vera á atkvæðaveiðum í gruggugu vatni og að íslenskri þjóð standi ekki ógn af innflytjendum". Hér kveður Magnús bara hálfa vísu, því Frjálslyndi flokkurinn hefur sagt að ógnin stafi af óheftum innflutningi. Frjálslyndi flokkurinn telur þar að auki enga ógn stafa af innflytjendum sem manneskjum eða persónum eða þjóðerni þeirra. En það er rétt hjá Magnúsi að við erum á atkvæðaveiðum. Einhvernveginn finnst mér að hið grugguga vatn sem Magnús talar um, sé fyrst og fremst óskýr framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar á þessi mál. Í greininni segir Magnús það með óbeinum hætti að íslendingar geti ekki heft frjálsa för launafólks til Íslands, nema um sé að ræða "aðgerð. . sem byggist á neyðarrétti". Það þýðir þá væntanlega að Magnús vill ekkert gera fyrr en í óefni er komið og að skapast hafi neyðarástand.
Sögumaðurinn og rithöfundurinn Illugi Jökullson á ekki í erfiðleikum með að búa til dramatíska sögu um atburðarásina í Frjálslynda flokknum undanfarin misseri. Hér er þó um að ræða tvær sögur, því Illugi verður hálfpartinn tvísaga þegar hann hefur lýst því að flokkurinn hafi skapað tortryggni í garð útlendinga, en viðurkennir rétt á eftir að "vissulega geti vandamál fylgt miklum flutningum útlendinga inn á ný svæði". Hann vill kæfa útlendingastefnu flokksins í fæðngu í fyrri sögunni, en í hinni seinni segir hann að "við eigum að vera viðbúin þeim vandamálum (sem fylgt geta miklum flutningum útlendinga) og tilbúin að takast á við þau". Í fyrri sögunni segir hann að Frjálslyndi flokkurinn sé mannfjandsamlegur, en í hinni seinni lýsir hann sinni skoðun þar sem segir: "við eigum að hvetja útlendinga til að læra á samfélag okkar, aðlagst okkur að því marki sem þeir sjálfir kjósa og sýna okkur þá virðingu sem við viljum sýna þeim". Í tilefni af tilvitnunni í þessi orð Illuga, þá skal geta þess að Frjálslyndi flokkurinn hefur engar áhyggjuar af því að útlendingar geti ekki lært á samfélag okkar og að þeir sem íslendingar geti sýnt hverjum öðrum virðingu. Við viljum bara benda á að til þess að allt gangi snurðulaust fyrir sig þurfum við að viðurkenna staðreyndir, læra af reynslu annarra þjóða, ræða málin á opinskáan hátt og hafa stjórn á aðstæðum svo ekki komi upp það sem Illugi kallar "vandamál sem geta fylgt miklum flutningum útlendinga inn á ný svæði".
Greinahöfundar lýsa því að við séum "siðblindir", að við "kyndum undir fordóma" og að það sé vilji okkar að skapa "tortryggni í garð útlendinga".
Mér dettur í hug erindi úr Passíusálmunum Hallgíms Péturssonar.
Vi þeim dómara er veit og sér
víst hvað um málið réttast er
vinnur það þó, fyrir vinskap manns
að víkja af götu sannleikans.
Ó, vesæll maður að því gá,
eftir mun koma tíminn sá,
sama hvað niður sáðir hér
sjálfur, án efa upp þú sker.
Ef hér á jörð, er hæðni og háð,
hróp og guðlast niður sáð
uppskorð verður eilíf spé,
agg og forsmán í helvíté.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.4.2007 kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.4.2007 | 18:47
Sannleikurinn er það sem þú veist, -en bara það og ekkert annað.
"Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa".
Þessi orð mælti Jesú nokkur frá Nasaret til áheyrenda sinna er hann boðaði kenningar sínar. Hann, ásamt félögum sínum, lærisveinunum voru eins og stjórnmálamenn nútímans, rekandi áróður fyrir nýrri hugsun og breyttum áherslum, en valdhafarnir höfðu engan áhug og skildu raunar ekki kenningar hans og þegar Jesú svaraði landstjóranum Pílatusi að hann hefði komið í heiminn til að bera sannleikanum vitni, segir Pílatus: Sannleikur, hvað er það?
Sannleikurinn er það sem maður veit, -en bara það og ekkert annað. Hann er eins og fegurðin, hún er bara til í kollinum á hverjum og einum, -það sem einum finnst fallegt finnst öðrum ljótt og öfugt- það sem er sannleikur fyrir einum eru hrein ósannindi fyrir öðrum.
Í biblíutextanum segir að maður þurfi að þekkja sannleikann. Sannleikurinn er nefnilega það sem maður veit í dag og ef maður veit meira á morgun þá er sannleikurinn orðinn annar. Það getur verið óþægilegt að þurfa að viðurkenna að sannleikurinn geti breyst og að maður hafi haft rangt fyrir sér af því að maður vissi ekki betur.
Ég man eftir leikfélaga frá yngri árum; þegar við deildum þá byrjaði hann alltaf að syngja ef hann komst í rökþrot og yfirgnæfði þannig rödd mína. Stundum finnst manni eins og fólk, t.d. sumir frambjóðendur, stuðningsmenn stjórnmálaflokka og jafnvel fjölmiðlafólk óttist sannleikann, -óttist að vita meira í dag en í gær, því þá sé sannleikurinn annar og trúin frá því í gær hafi verið byggð á "sandi" og sjálfsmynd þeirra muni bíða hnekki. Ég verð t.d. alltaf jafn hissa þegar fjölmiðlafólk afbakar fréttir, -segir bara hálfar sögur.
En þekkingin er grundvöllur fegurðarnautnarinnar og sannleikur sem byggist á því að vita meira og meira gerir okkur glöð.
Og frelsið er yndislegt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.4.2007 kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.4.2007 | 11:07
Innflytjendur verði íslendingar
Eitt megin markmið í stefnu Frjálslynda flokksins er að innflytjendur verði íslendingar.
Þá er eðlilegt að spurt sé: Hvenær er það sem innflytjendur verða íslendingar?
Ég myndi halda að í stuttumáli þýddi það að sá hinn sami fær íslenskan ríkisborgararétt, nýtur allra hlunninda sem íslenskt samfélag býður upp á og um leið skal hann vera hæfur til að uppfylla allar sömu skyldur og lagðar eru á herðar annarra íslendinga.
Til að að íslenskt samfélag geti uppfyllt það að innflytjendur njóti alls þess sem við höfum byggt hér upp þurfum að gæta þess að ofgera okkur ekki. Við þurfum að geta haft stjórn á innflutningi fólks til landsins svo við getum sinnt öllum með sóma. Íslenskt heilbrigðiskerfi þarf að geta tekið við öllum sem til þess leita, íslenskur atvinnumarkaður þarf að eiga störf fyrir þá sem hingað koma, skólakerfið þarf að geta sinn þeim öllum og almannatryggingakerfið geta sinnt öllum, hvort sem þeir eru af erlendu bergi brotnir eður ei.
Nú er spurt: Hversu mörgum getur íslenskt heilbrigðiskerfi sinnt með góðu móti og hvert er þanþol þess? Hversu mörgu atvinnulausu fólki er atvinnumarkaðurinn og stofnanir hans tilbúnar að sinna ef til þess kemur að hér verður atvinnukrepppa, -ætla menn þá bara að senda innflytjendur til "síns heima". Hefur almannatryggingakerfið einhverjar skyldur gagnvart innflytjendum og hvernig ætla menn þar á bæ að bregðast við óheftu flæði fólks til landsins? Hvernig ætlar skólakerfið að bregðast við ef nemendum fjölgar um tugi prósenta?
Þessum spurningum hafa núverandi stjórnvöld ekki svarað. Frjálslyndi flokkurinn hefur bent á að stofnanir samfélagsins hafa takmarkaða getur til að bregðast við óheftum innflutningi fólks og því þurfi að hafa stjórn á flæði fólks til landsins.
Hér er eitt lítið dæmi úr skólakerfinu sem á eiginlega ekkert skylt við þann mikla innflytjendastraum sem við höfum upplifað undanfarin misseri, en gæti orðið daglegt viðfangsefni ef þeim skólanemum fjölgar mikið sem ekki kunna íslenskt mál: Í fámennum framhaldsskóla á Íslandi sitja íslenskir nemendur í bekk ásamt einum dana. Hann kann ekki íslensku, en hann kann ensku. Kennurunum finnst fínt að tala bara ensku í tímunum því þeir kunna hana sjáfir svo vel og gera ráð fyrir að íslensku nemendurnir kunni ensku líka. Íslensku nemendurnir skammast sín fyrir að þurfa að viðurkenna það að þeir kunni enskuna ekki vel og láta þetta því yfir sig ganga þó svo það komi niður á náminu. -Þessi staða er uppi, bara vegna þess að í bekknum er einn dani sem ekki nennir að læra íslensku. Spáið í það.
Það virðist vera mottó í íslensku skólakerfi að öll skólabörn skuli geta talað ensku og mætti stundum halda að allir íslendingar væru að undirbúa brottflutning frá landinu.
Ætla íslensk stjórnvöld og yfirvald skólamála að hafa einhverja skoðun á því hvort innflytjendur læri íslensku og tali íslensku í íslenskum skóla, eða eigum við bara á láta kennarana ráða þessu? Eigum við að gera einhverjar kröfur til innflytjenda um að þeir sæki íslenskukennslu og eigum við að gera kröfur um árangur þess náms?
Að lokum: Þarftu nokkuð að fara út í Bónus á næstunni? Þá væri gott að kunna eitthvað annað mál en íslensku.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Eitt stærsta vekefni næstu ríkisstjórnar er að taka ákvörðun um stóraukin framlög í endurgerð þjóðveganna á höfuðorgarsvæðinu. Ríkisstjórnin hefur algjörlega sofið á verðinum og til vitnis um það er fögnuður hennar yfir tillögum um fjármögnun Sundabrautar, eins og lagning hennar sé mikilverðasta framkvæmdin hér á höfuðborgarsvæðinu. Sundabraut kemur í fyllingu tímans, en lagning Miklubrautar í stokk og gerð mislægra gatnamóta á Reykjanesbraut frá Hafnarfirði og að Ártúnsbrekku á að vera fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar.
Á hverjum degi sitja 77.000 íbúar á höfuðborgarsvæðinu fastir í umferðarteppu. Áætla má að sá tími sem þeir eyða aukalega vegna umferðarinnar sé um 15 mínútur á dag, - 8 mínútur á morgnana og 7 mínútur seinnipartinn. Tekjumissir samfélagsins vegna þessa er gríðarlegur. Tíminn sem fólk eyðir í óþarfa bið er rúmlega 56 klukkustundir á ári. Ef gert er ráð fyrir að meðaltals tímakaup fólk sé 1.333 kr. þá er tekjumissir samfélagsins vegna hvers ökumanns um 75.000 kr. á ári eða samtals 5,7 milljarða fyrir íslenskt samfélag.
Þar fyrir utan fer gríðarlegt eldsneyti í að vera stöðugt að hemla, stoppa og taka af stað, -og það kostar nú skildinginn.
Framkvæmdir þær sem hér er um rætt og ráðast þarf í eru svo þjóðhagslega hagkvæmar að þær borga sig á fáum árum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)