Sannleikurinn er það sem þú veist, -en bara það og ekkert annað.

"Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa".

Þessi orð mælti Jesú nokkur frá Nasaret til áheyrenda sinna er hann boðaði kenningar sínar.  Hann, ásamt félögum sínum, lærisveinunum voru eins og stjórnmálamenn nútímans, rekandi áróður fyrir nýrri hugsun og breyttum áherslum, en valdhafarnir höfðu engan áhug og skildu raunar ekki kenningar hans og þegar Jesú svaraði landstjóranum Pílatusi að hann hefði komið í heiminn til að bera sannleikanum vitni, segir Pílatus: Sannleikur, hvað er það?

Sannleikurinn er það sem maður veit, -en bara það og ekkert annað.  Hann er eins og fegurðin, hún er bara til í kollinum á hverjum og einum, -það sem einum finnst fallegt finnst öðrum ljótt og öfugt- það sem er sannleikur fyrir einum eru hrein ósannindi fyrir öðrum.

Í biblíutextanum segir að maður þurfi að þekkja sannleikann. Sannleikurinn er nefnilega það sem maður veit í dag og ef maður veit meira á morgun þá er sannleikurinn orðinn annar.  Það getur verið óþægilegt að þurfa að viðurkenna að sannleikurinn geti breyst og að maður hafi haft rangt fyrir sér af því að maður vissi ekki betur. 

Ég man eftir leikfélaga frá yngri árum; þegar við deildum þá byrjaði hann alltaf að syngja ef hann komst í rökþrot og yfirgnæfði þannig rödd mína.  Stundum finnst manni eins og fólk, t.d. sumir frambjóðendur, stuðningsmenn stjórnmálaflokka og jafnvel fjölmiðlafólk óttist sannleikann, -óttist að vita meira í dag en í gær, því þá sé sannleikurinn annar og trúin frá því í gær hafi verið byggð á "sandi" og sjálfsmynd þeirra muni bíða hnekki.  Ég verð t.d. alltaf jafn hissa þegar fjölmiðlafólk afbakar fréttir, -segir bara hálfar sögur.

En þekkingin er grundvöllur fegurðarnautnarinnar og sannleikur sem byggist á því að vita meira og meira gerir okkur glöð. 

Og frelsið er yndislegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Mæl þú heilastur!

Grein þessi minnir á orð Schopenhauers, Huxleys og fleiri um afstæði raunveruleikans og sannleikans.

Það virðist vera einkennandi í stjórnmálum sem og á öðrum vettvangi samfélagsumræðunnar að menn megi ekki þroskast og/eða skipta um skoðun.

Þegar ég var ungur kenndi ég mig við sósíalisma. Svo, þegar ég varð eldri og víðlesnari hallaðist ég frá því gerræði sem þar var boðað og til frjálslyndari og frjálshyggnari skoðana, þar sem ég sá að innan sósíalismans var boðuð hjarðhugsun og svokölluð býkúpusamfélagsmynd þar sem lítið var um persónufrelsi.

Þegar ég var ennþá yngri en það var ég kristinn maður. Ég ber ennþá virðingu fyrir Ieshua frá Nazaret sem friðarboðbera, en ég er ekki lengur trúaður, né fylgi ég skipunum, boðum eða bönnum frá boðberum skipulagðra trúarbragða.

Það að þroskast felur í sér hugafarslega þróun, sama í hvaða átt það er. Það að þroskast felur í sér viðurkenningu á því að maður fæddist ekki fullmótaður og að maður geti skipt um skoðun og að maður sé sjálfur rétt eins breyskur og hver annar maður.

Þegar kemur að pólítískri umræðu hérlendis, sem og erlendis, er fólk gjarnt á að draga sig í dilka og ata andstæðinga aur í stað þess að berjast með rökum og málefnalegri umræðu og gera sér grein fyrir því að á landi sem voru er enginn að berjast fyrir verri kjörum þegna, hvorki innfluttra né innfæddra.

Fullvissa er versti óvinur heimspekilega þenkjandi einstaklings sem ætlar sér að þroska hugann. Það sem þú veist í dag er breytt á morgun og sannleikurinn breytist í hafi nýrra staðreynda, sannana og skoðana.

Þú kýst að vitna í Ieshua, ég kýs að enda þessa athugasemd mína með tilvitnun í minn eftirlætis hugsuð, sjálfan mig;

Til þess að maður geti með sönnu talist frjáls þarf hvorttveggja til að bera; ábyrgð og umburðarlyndi. Án þessara megineinda getur enginn talist frjáls.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.4.2007 kl. 19:25

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Kjartan.

Sannarlega góð hugleiðing.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 5.4.2007 kl. 01:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband