Innflytjendur verði íslendingar

Eitt megin markmið í stefnu Frjálslynda flokksins er að innflytjendur verði íslendingar. 

Þá er eðlilegt að spurt sé:  Hvenær er það sem innflytjendur verða íslendingar? 

Ég myndi halda að í stuttumáli þýddi það að sá hinn sami fær íslenskan ríkisborgararétt, nýtur allra hlunninda sem íslenskt samfélag býður upp á og um leið skal hann vera hæfur til að uppfylla allar sömu skyldur og lagðar eru á herðar annarra íslendinga.

Til að að íslenskt samfélag geti uppfyllt það að innflytjendur njóti alls þess sem við höfum byggt hér upp þurfum að gæta þess að ofgera okkur ekki.  Við þurfum að geta haft stjórn á innflutningi fólks til landsins svo við getum sinnt öllum með sóma.  Íslenskt heilbrigðiskerfi þarf að geta tekið við öllum sem til þess leita, íslenskur atvinnumarkaður þarf að eiga störf fyrir þá sem hingað koma, skólakerfið þarf að geta sinn þeim öllum og almannatryggingakerfið geta sinnt öllum, hvort sem þeir eru af erlendu bergi brotnir eður ei.

Nú er spurt: Hversu mörgum getur íslenskt heilbrigðiskerfi sinnt með góðu móti og hvert er þanþol þess?  Hversu mörgu atvinnulausu fólki er atvinnumarkaðurinn og stofnanir hans tilbúnar að sinna ef til þess kemur að hér verður atvinnukrepppa, -ætla menn þá bara að senda innflytjendur til "síns heima".  Hefur almannatryggingakerfið einhverjar skyldur gagnvart innflytjendum og hvernig ætla menn þar á bæ að bregðast við óheftu flæði fólks til landsins?  Hvernig ætlar skólakerfið að bregðast við ef nemendum fjölgar um tugi prósenta?

Þessum spurningum hafa núverandi stjórnvöld ekki svarað.  Frjálslyndi flokkurinn hefur bent á að stofnanir samfélagsins hafa takmarkaða getur til að bregðast við óheftum innflutningi fólks og því þurfi að hafa stjórn á flæði fólks til landsins.

Hér er eitt lítið dæmi úr skólakerfinu sem á eiginlega ekkert skylt við þann mikla innflytjendastraum sem við höfum upplifað undanfarin misseri, en gæti orðið daglegt viðfangsefni ef þeim skólanemum fjölgar mikið sem ekki kunna íslenskt mál:   Í fámennum framhaldsskóla á Íslandi sitja íslenskir nemendur í bekk ásamt einum dana.  Hann kann ekki íslensku, en hann kann ensku.  Kennurunum finnst fínt að tala bara ensku í tímunum því þeir kunna hana sjáfir svo vel og gera ráð fyrir að íslensku nemendurnir kunni ensku líka.  Íslensku nemendurnir skammast sín fyrir að þurfa að viðurkenna það að þeir kunni enskuna ekki vel og láta þetta því yfir sig ganga þó svo það komi niður á náminu.   -Þessi staða er uppi, bara vegna þess að í bekknum er einn dani sem ekki nennir að læra íslensku.  Spáið í það. 

Það virðist vera mottó í íslensku skólakerfi að öll skólabörn skuli geta talað ensku og mætti stundum halda að allir íslendingar væru að undirbúa brottflutning frá landinu. 

Ætla íslensk stjórnvöld og yfirvald skólamála að hafa einhverja skoðun á því hvort innflytjendur læri íslensku og tali íslensku í íslenskum skóla, eða eigum við bara á láta kennarana ráða þessu?  Eigum við að gera einhverjar kröfur til innflytjenda um að þeir sæki íslenskukennslu og eigum við að gera kröfur um árangur þess náms?

Að lokum: Þarftu nokkuð að fara út í Bónus á næstunni?  Þá væri gott að kunna eitthvað annað mál en íslensku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Sæll Kjartan,

Seint hefði ég trúað því að þú færir að jórtra þessa tuggu þeirra Jóns og Magnúsar Þórs.

Þetta er málaflokkur sem fer auðveldlega úr böndunum í höndum fólks sem ætlar að misnota hann sjálfu sér til framdráttar.

kk,

SIJ

Sigurður Ingi Jónsson, 3.4.2007 kl. 13:40

2 identicon

Það er forræðishyggju-fnykur af þessari færslu, skipta sér af því hvernig Íslendingar tala? Auk þess spyr ég mig alltaf að einu, þegar verið er að tala um íslenskukennslu og einhvers konar "próf" á þeirri framvindu útlendinga: Hvað gera Frjálslyndir ef Íslendingur fellur á því prófi? Er hann þá ekki lengur Íslendingur?

Johanna (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 14:59

3 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

SIJ : Það er mikið rétt að það er hættulegt þegar fólk fer að tala beinlínis á móti innflytjendum sjálfum sér til framdráttar, en það er ekki raunin hér, við hjá FF erum aðeins að benda á aðsteðjandi vanda sem mun rísa hér á næstu árum ef ekkert er aðhafst. 

Jóhanna; Það er enginn að tala um að taka upp hreinan Íslensku-fasisma. Ef svo væri þá væri fyrir löngu búið að senda hartnær 50% íslensku þjóðarinnar aftur til Noregs vegna bágrar fallbeygingarkunnáttu, lélegrar stafsetningar, afleitar setningarfræði svo ekki sé talað um þágufallssýki. Mér þykir mjög vænt um tungu okkar og ég myndi nú ekki bjóða þér verðlaun fyrir setningarbyggingu, en það er ekki það sem verið er að tala um, þar er frekar um lélegri móðurmálskennslu innan menntakerfisins um að ræða. Flestum þeim sem unna málinu hryllir við að heyra hvað fólk fallbeygir vitlaust nútildags, en það er engin leið að koma í veg fyrir það nema með auknum áheyrslum á mennamál. Við hefðum í það minnsta ekki efni á að senda alla þá innfæddu Íslendinga sem ekki kunna að fallbeygja aftur til Norge með flugi.

Það er enginn að tala um að innflytjendur þurfi að tala svo lýtalausa Íslensku að af þeim stafi þjóðlegur bjarmi! Það er einfaldlega verið að benda á að bág Íslenskukunnátta kann að koma þeim sem hingað flytja um koll þegar misvandaðir einstaklingar ráða þá til starfa án þess að þeim séu kynntur sinn réttur og sínar skyldur og að innflytjendur geti bjargað sér hérna án þess að hafa með sér túlk.

Það er dapurleg staðreynd að börn, gamalmenni og aðrir einstaklingar sem eiga máski erfitt með að bregða fyrir sér öðrum tungum en hinni ástsælu ilhýru geta ekki farið og verslað í lágvöruverslunum án þess að hafa með sér túlk. Það einfaldlega gengur ekki upp.

Það hafa verið dæmi um það að læknismenntaðir innflytjendur hafi starfað hér við vegavinnu eða ræstingar sökum þess að þeim bjóðast ekki stöður innan heilbrigðisgeirans sökum bágrar málakunnáttu, á meðan það er alltaf skortur á fleiri menntuðum einstaklingum innan þessara málaflokka.

Þegar innflytjendur setjast hér að, koma þeir hingað til þess að taka þátt í íslensku samfélagi, og það reynist mjög erfitt ef þeir eta ekki bjargað sér á íslenskri tungu. Það er einfaldlega staðreynd að það hefur enganvegin verið staðið nógu vel að þessum málaflokkum hérlendis og úr þessu þarf að bæta til þess að það komi ekki upp slík vandamál sem þekkjast erlendis, að kynþáttahatur og ofbeldi nái að grassera vegna vandamála sem þessa.

Þó að máski kitli þessi færsla pólitískt lyktarskyn þitt sem forræðishyggjuleg, þá er hún það alls ekki. Það er einfaldlega verið að benda á að Íslenskukunnátta er forsenda fyrir góðu lífi á Íslandi. Það er einfaldlega verið að benda á að innflytjendur þurfi að læra málið til þess að geta bjargað sér sjálfir. Það er allt og sumt. Ef það að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft er forræðishyggja, þá þarf ég að lesa stjórnmálafræðina mína betur.

Síðast þegar ég gáði, þá er nóg forræðishyggja innan hinna flokkana sem hægt væri að benda á, enda hefur það nánast þótt sæta undrum undanfarið þing að ekki hafi komið reglulega upp frumvörp sem áttu að framkvæmast í svefnherbegjum landsmanna.

X-F

kv.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.4.2007 kl. 16:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband