Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
19.4.2010 | 21:45
Leynimakk, geðþóttaákvarðanir og spilling einkenna borgarstjórn.
Ræða á fundi borgarstjórnar 15. desember 2009.
Lýðræðisleg vinnubrögð?
Forseti, góðir borgarfulltrúar.
Það er ekkert vafamál að starfsmenn fagsviðanna hér í borginni , starfsmenn ráðhússins og nefndamenn í ráðum borgarinnar hafa lagt sig fram um að búa svo um hnútana við gerð fjárhagáætlunarinnar fyrir árið 2010 að sem minnst röskun verði á starfsemi borgarinnar, miðað við þær forsendur sem þeim voru gefnar um niðurskurð, í kjölfar spádóma um minni skatttekjur borgarinnar.Við í F-listanum höfum ekki komið beint að gerð þessarar fjárhagsáætlunar, þar sem reynt hefur verið að halda okkur frá henni. Sérstakur aðgerðahópur var stofnaður, sem í eru fulltrúar allra flokka nema F-listans og hefur okkur ekki verið boðið að vera þar með. Venjan er að fjárhagsáætlunarvinnan sé að mestu unnin í borgarráði, en nú virðist vera búið að færa þessa vinnu að einhverju leyti yfir á þennan svokallaða aðgerðahóp. Það verður seint sagt að það flokkist undir lýðræðisleg vinnubrögð að halda kjörnum fulltrúa F-lista fyrir utan nefndir þar sem öll önnur stjórnmálasamtök í borgarstjórn Reykjavíkur eiga fulltrúa. Það er ekki nóg með að fulltrúi þeirra 10% kjósenda sem kusu F-listann í síðustu kosningum sé útilokaður frá fjárhagsáætlunarvinnunni, heldur hefur hann ekki atkvæðisrétt í nefndum borgarinnar, en fær fyrir einhverja náð og miskunn að sitja fundi sem áheyrnarfulltrúi, á sama bekk og fulltrúar hagsmunasamtaka utan úr bæ. Og það er ekki nóg, því á öllum stöðum þar sem starfsemi borgarinnar er kynnt, saman ber á vefsíðum borgarinnar, þar eru fulltrúar F-listans ekki taldir upp með öðrum kjörnum fulltrúum í nefndum borgarinnar, heldur nefndir einhversstaðar neðanmáls og til að fingraförin okkar á F-listanum sjáist sem minnst í bókum borgarinnar þá skulum við ekki árita fundargerðir, þrátt fyrir að við leggjum þar fram tillögur og bókanir. Þessi háttur er til skammar fyrir stjórn borgarinnar og getur varla verið samkvæmt lögum. Aðrir fulltrúar í minnihlutanum sem hafa haft jafnrétti sem helsta baráttumálið sitt fyrir kosningar, þ.e.a.s. Samfylkingin og Vinstri grænir, hafi ekki staðið með fulltrúa F-listans og mótmælt þessu. Ég veit ekki af hverju Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi F-listans fær ekki að starfa með þessum aðgerðahóp. Kannski er það vegna þess að hann er með annan háralit. Það er þá ekki í fyrsta skipti sem fólk með sérstakan háralit verður fyrir aðkasti eða er lagt í einelti. Allt lýðræðishjalið hjá fjórflokknum virkar sem lýðskrum þegar svona er í pottinn búið.
Loforð og svik.
Forseti.
Menntasvið borgarinnar hefur mátt skera niður og er fyrirsjáanlegt að það kemur niður á skólastarfinu með þeim hætti að viðvera barnanna í skólanum styttist. Í borgarstjóratíð Ólafs F. Magnússonar var tekin sú ákvörðun að byggja við Korpuskóla þegar í ljós kom að færanlegar kennslustofur á skólalóðinni voru ekki hæfar til notkunar vegna myglusvepps sem hafði tekið sér þar bólfestu. Byggingartíminn átti að vera 2 ár og voru elstu nemendurnir sendir upp í Víkurskóla á meðan. Því var hátíðlega lýst yfir af hálfu þáverandi formanns menntaráðs, Júlíusar Vífils Ingvarssonar á fjölmennum íbúafundi í skólanum, að byggt yrði við skólann og viðbyggingin tekin í notkun haustið 2010. Ekkert hefur bólað á þessari byggingu, síðan núverandi meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við. Við í F-listanum höfum lýst undrun okkar á þessu með reglulegum hætti í Framkvæmda- og eignaráði og í Menntaráði. Þrátt fyrir minnkandi skatttekjur á næsta ári er engin ástæða til að fresta þessari byggingu, enda um að ræða skólahúsnæði, byggt fyrir lánsfé og greitt niður á einhverjum áratugum. Sama er að segja um viðbyggingu við Rimaskóla. Foreldrum var lofað fyrir mörgum árum að byggt yrði við Rimaskóla og það loforð endurtekið þegar ákveðið var að byggja á Landsímalóðinni svokölluðu sem er í nágrenni skólans. Það bólar ekkert á þeirri byggingu og ekki verður séð í frumvarpi því til fjárhagsáætlunar sem hér liggur fyrir að hafist verði handa við þá byggingu á næsta ári frekar en byggingu við Korpuskóla. Skúrarnir á Rimaskólalóðinni verða því þar áfram og eldri nemendur í Staðahverfi munu áfram þurfa að sækja nám í Víkurskóla. Það er ekki hægt að kalla þetta aðgerðaleysis meirihlutans öðru nafni en svik. Og það þarf að byggja við fleiri skóla en þá sem hér eru nefndir. Það þarf að halda við skólabyggingunum. Það þarf að breyta og bæta innandyra í grunnskólum borgarinnar í ljósi breyttra aðstæðna, en það fer voðalega lítið fyrir slíku. Við gerum kröfur til grunnskólakennara um árangur í starfi, en þá þurfum við líka að bjóða þeim upp á bestu vinnuaðstæður. Það þótti ágætt á sínum tíma að hafa ferkantaðar kennslustofur þar sem hátt var til lofts og stóll og borð fyrir hvern nemenda. Kröfurnar eru meiri í dag. Þó svo reynt hafi verið að skapa aðstöðu fyrir aðra þjónustuaðila, eins og sálfræðinga, þroskaþjálfa og sérkennslukennara í nýjustu skólabyggingunum þá dugir það ekki til. Við á F-listanum teljum að góð starfsaðstaða og aðlaðandi fyrir kennara og starfsfólk grunnskóla sé lykillinn að góðum árangri og þar með lykilinn að góðri líðan barnanna. Við teljum að skólabyggingarnar hér í Reykjavík þurfi endurskipulagningar við. Síðustu misseri hefur mikið verið talað um áherslur á listagreinar. En hvar er aðstaða í grunnskólum fyrir listgreinakennslu. Hún er varla til. Af hverju er t.d. ekki leikhússalur í öllum grunnskólum? Þar sem listin færi fram; danssýningar, leiksýningar, fyrirlestrar, tónleikar, upplestur, fundarhöld og svo framvegis. Því miður þá hefur maður það á tilfinningunni að menn haldi að það skólakerfi sem við búum við sé eitthvert náttúrulögmál og þar sé engu hægt að breyta. En skólakerfið er okkar smíði og við getum breytt því öllu saman ef við bara viljum. Það er staðreynd að fyrir tveimur eða þremur árum voru 40% 18 ára drengja hættir skólagöngu. Það er einnig staðreynd að árið 2006 voru yfir 40% 24 ára karlmanna úr árganginum 1982, hættir námi, og höfðu ekki lokið stúdentsprófi eða starfstengdu réttindanámi. Ég hygg að þetta hafi ekki mikið breyst síðan þá. Þessi staða er óásættanleg. Við getum kennt framhaldsskólanum um þetta, en hræddur er ég um að grunnskólaganga þessa unga fólks eigi hér hlut að máli. Svona viljum við ekki hafa skólagönguna hjá ungmennunum. Ef við viljum breyta þessu þá þurfum við að koma til móts við þarfir þessara nemenda, -leggja áherslu á aðra þroskaþætti en við gerum í dag og hætta að refsa stöðugt sömu börnunum öll grunnskólaárin þeirra, með dómum um lélegan námsárangur sem byggist alfarið á sjónskyni og heyrnarskini. Þeir nemendur sem illa gengur að lesa texta og muna ártöl eru kannski með frábært fínhreyfingaskyn, gott snertiskyn og hafa hæfileika í mannlegum samskiptum,- en þeir fá litla umbun fyrir það í grunnskólanum. Við þurfum að breyta skólakerfinu, minnka vægi fræðilega námsins og auka vægi þess verklega og fullnægja sköpunarþörfinni og þörfum fyrir hvers konar hreyfingu, en hreyfingaleysi er að verða stórt vandamál hjá þeim kynslóðum sem nú vaxa úr grasi. Svo það sé hægt þurfum við öðruvísi skólabyggingar og nægt pláss.
Hvað varð um gatnaframkvæmdirnar?
Forseti.
Ekkert bólar á framkvæmdum á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar eða á Miklubraut um Hlíðahverfi undir Lönguhlíð og gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar og ekki er að sjá á fjárhagsáætluninni að borgin ætli sér að fara að hefja þar framkvæmdir. Á þessum gatnamótum myndast á álagstímum mikil umferðartöf og stundum er umferðin nánast stopp. Það þarf ekki mikinn speking til að reikna það út að það er mikil þjóðhagsleg hagkvæmni í því að greiða umferð um þessi gatnamót. Tími þeirra þúsunda sem á hverjum virkum degi aka þar um og eyða fleiri mínútum í að aka örfáa metra er í heildina gríðarlega mikill. Þar tapast mikil verðmæti. Öryggi borgarbúa er ógnað þegar sjúkraflutningar, slökkvilið og lögregla eiga í erfiðleikum með að fara um þessar umferðaræðar í útköllum. Umferðarljós eiga ekki heima á Reykjanesbraut eða Miklubraut. Í borgarstjóratíð Ólafs F. Magnússonar borgarfulltrúa F-listans, var ákveðið að framkvæmdir skyldu hafnar á Miklubraut. Haldnir voru fundir með íbúum í Hlíðunum til að kynna tillögur um að leggja Miklubraut í stokk undir Lönguhlíð. Miklabraut er þjóðvegur og var Vegagerð ríkisins búin að hanna mannvirkin enda kostuð að mestu af ríkisfé. Af hálfu borgarinnar var málið á fullu skriði, en ekkert hefur gerst síðan núverandi meirihluti tók við. Framkvæmdir ættu að vera hafnar. Búið var að gera ásættanlega útfærslu á mislægum gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar sem miðaði að því að ekki yrði röskun á útivistarsvæðinu í Elliðaárdal eða farvegi kvíslarinnar sem rennur meðfram Reykjanesbraut við Blesugróf. Þar eru engar framkvæmdir. Reykjanesbraut og Miklabraut eru slagæðar gatnakerfisins á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar Vesturbæjar og Seltjarnaness bíða eftir framkvæmdum á Miklubraut . Verið er að reisa háskóla við Öskjuhlíð vestan Miklubrautar, áætlað er að reisa nýtt sjúkrahús, nýjan Landsspítala vestan Miklubrautar. Samt eru engar framkvæmdir á Miklubraut. Það er erfitt að sjá um hvað núverandi meirihlutasamstarf snýst annað en að vera við völd, því helstu kosningaloforðin þeirra í síðustu kosningum eru hvergi sjáanleg. Ég vil minna á að Ólafur F. Magnússon hefur lagt fram tillögur um breytingar á nokkrum hættulegum gatnamótum og minni hámarkshraða á ákveðnum götum til að auka öryggi í umferðinni en við litlar undirtektir, því miður. Samt eru þessar tillögur fram komnar vegna slysa sem orðið hafa á þessum stöðum.
Fjárframlögin í kosningasjóðina.
Forseti.
Lögum samkvæmt skal borgarstjórn Reykjavíkur leggja fram rekstrarstyrki til stjórnmálasamtaka sem fulltrúa eiga í borgarstjórn og geri ég ráð fyrir að þeirra fjármuna sé getið í fjárhagsáætluninni. Það er rétt að vekja athygli borgarbúa á því, að núverandi meirihluti kemur í veg fyrir að F-listinn fái hið lögboðna framlag til starfsemi sinnar á þessu ári. Hér er klárlega um lögbrot að ræða og einnig gróf mismunun. Því er haldið fram að ekki sé ljóst hver eigi að taka við fjárframlaginu. Fulltrúi F-listans í borgarstjórn og frambjóðendur á F-lista í síðustu kosningum og sem ennþá starfa þar fara með umboð þess fólks sem kaus F-lista Frjálslyndra og óháðra í síðustu kosningum eiga að sjálfsögðu að fara með þetta fé. Þeir eru stjórnmálasamtök í skilningi laganna. Fjárframlagið er ætlað til starfsemi F-listans og meðferð fjárframlagsins er á ábyrgð hans. Borgarstjóri er ábirgur fyrir því hvernig á þessu máli hefur verið haldið og ég skora á hann að leiðrétta þetta hið snarasta.Varðandi fjárframlög til stjórnmálaflokka þá höfum við á F-listanum sagt að það megi okkar vegna spara þessi fjárframlög, en þá verði að gæta jafnræðis. Og talandi um hag stjórnmálaflokka og um jafnræði í styrkjum til stjórnmálaafla og frambjóðenda má rifja upp að Ólafur F. Magnússon okkar fulltrúi í borgarstjórn lagði til að Innri endurskoðun borgarinnar yrði falið að fara í gegnum hagsmunatengsl Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra og Landsbanka Íslands vegna gruns um, að fjárframlög bankans til framboðs Hönnu Birnu hafi gert hana vanhæfa til að fjalla um lóðamál á svokölluðum Frakkastígsreit þar sem til stóð að bankinn reisti húsnæði fyrir Listaháskóla Íslands. Á þeim tíma var Kjartan Gunnarsson stjórnarformaður Landsbankans, en hann er fyrrum framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og áður yfirmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur núverandi borgarstjóra er hún hafði starfsvettvang í höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins í Valhöll. Það er nú einu sinni svo að fyrirtæki hafa ekki skoðanir heldur bara hagsmuni. Þegar fyrirtæki leggja fram fé í kosningabaráttu samtaka eða einstaklinga þá liggja þar hagsmunir að baki. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að fyrirtæki leggi fram fé til kosningabaráttu, en kjósendur eiga heimtingu á að fá að vita hvaða hagsmuni þau fyrirtæki hafa. Við getum spurt; hvaða hagsmuni hafði Bónus af því að veita Gísla Marteini Baldvinssyni einnar milljónar króna styrk í hans kosningabaráttu? Því hefur ekki verið svarað. Hvaða hagsmuni átti Landsbankinn þegar hann veitti Sjálfstæðisflokknum 30 milljóna króna styrk. Það hefur ekki verið gefið upp. Fjárframlög fyrirtækja til stjórnmálasamtaka, sem ekki eru eyrnamerkt ákveðnum hagsmunum, á að banna. Það er krafa samfélagsins í dag. Á stórum fundi í Laugardalshöll sem kallaður hefur verið þjóðfundur var fyrsta krafan um endurbætur í þjóðfélaginu tengd hugtakinu heiðarleiki. Þjóðin vill heiðarleika, þjóðin vill vera laus við leynimakkið. Við í F-listanum höfum bent á óheilindin hjá núverandi meirihluta og hin óeðlilegu hagsmunatengsl sem víða liggja. Ég hygg að kjósendur muni kalla á breytingar næsta vor. Ef lýðræðið á að standa undir nafni þarf almenningur að geta treyst því að stefnumál frambjóðenda séu þau sem þeir lýsa og að baki liggi ekki önnur leynd hagsmunamál tengd fjárframlögum fyrirtækja.
Engin höfuðborg án flugvallar.
Forseti.
Ólafur F. Magnússon borgarstjóri þriðja meirihlutans á þessu kjörtímabili undirritaði samning við samgönguráðherra um byggingu samgöngumiðstöðvar austan til í Vatnsmýrinni. Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri endurtók þennan gjörning. Samt ýjaði formaður skipulagsráðs Júlíus Vífill Ingvarsson að því í fjölmiðlum fyrir stuttu að til greina kæmi að hætta við þessa samgöngumiðstöð og reisa nýja afgreiðslu fyrir flugið á þeim stað þar sem hún er nú, að vestanverðu við flugbrautirnar. Ólafur F. Magnússon flutti í kjölfarið af þessum fréttum tillögu um það hér, að borgarstjórn samþykkti slíka breytingu á legu samgöngumiðstöðvar í þeim tilgangi að festa flugvölinn í sessi. Það kom engin breytingatillaga fram frá öðrum flokkum við tillögu F-listans, heldur var hún felld með 14 atkvæðum gegn 1 atkvæði Ólafs. Það mátti skilja á umræðunum um tillöguna að það væri óþarfi að ræða flugvallarmálið þar sem ljóst væri að hann yrði hér allavega til ársins 2016 eða 2024. Umræða um skipulag heillar borgar og tilveru flugvallar þarf að taka til svolítið fleiri ára en þeirra 5 eða 15 sem fulltrúar allra flokka í borgarstjórn annarra en F-listans virðast binda sig við. Við segjum; ein af grundvallarstoðum Reykjavíkur sem höfuðborgar er flugvöllurinn í Vatnsmýrinni. Á meðan ekki er risin annar flugvöllur á höfuðborgarsvæðinu tökum við ekki ákvörðun um að leggja flugvöllinn í Vatnsmýrinni niður eða að skipuleggja þar aðra byggð. Flugvöllurinn er þar að auki ein forsenda þess að nýbygging Landsspítala Ísland verður hér í Reykjavík. Sveitarfélagið Reykjavík hefur tekið að sér að hýsa mikilvægustu stofnanir samfélagsins; stjórnsýslu ríkisins, stærstu háskólana og Landsspítalann og flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er ein forsenda þess að svo verði áfram. Það er alveg ljóst að fjárhagslegir hagsmunir borgarinnar eru gríðarlegir af því, að hafa innanlandflugið hér í Vatnsmýrinni. Nokkur hundruð ársstörf eru i húfi og bara útsvarstekjur af þeim störfum nema hundruðum milljóna króna.
Það er hægt að spara í rekstri borgarinnar
Forseti.
F-listinn lagði fram tillögur um sparnað í rekstri borgarinnar sem lutu að því að hagræða með því að leggja niður tvö fagráð borgarinnar; mannréttindaráð og leikskólaráð. Í upphafi þessa kjörtímabils var búið til sérstakt leikskólaráð, en yfirstjórn leikskóla var áður hjá menntaráðinu. Þörfin fyrir sérstakt leikskólaráð er mjög óljós og helst að sjá sem þurft hafi að búa til formannembætti fyrir borgarfulltrúa svo kjörnir fulltrúar nýs meirihluta hefðu nóg að gera í upphafi þessa kjörtímabils. Leikskólaráð hefur með fyrstu 5 æviár barnanna okkar að gera. Það eru engin haldbær rök til fyrir því að hafa sérstakt leikskólaráð freka en að hafa sérstakt ráð fyrir börn 6 til 11 ára og svo þriðja ráðið fyrir 11 ára börn og til loka grunnskólaskyldunnar. Við á F-listanum teljum að fagleg og fjárhagsleg málefni leikskólanna og grunnskólanna eigi heima undir sama þaki og í einni nefnd, því sé óhætt að leggja leikskólaráð niður og spara þannig fjármuni. Að hafa sérstakt mannréttindaráð er óþarfa kostnaður, því ekki verður séð að það hafi mörgum verkefnum að sinna og einnig er erfitt að sjá að það hafi sinnt þeim mannréttindabrotum sem eiga sér stað á vettvangi borgarstjórnar. Við á F-listanum viljum því daga úr kostnaðarsamri yfirbyggingu við stjórn borgarinnar og leggja niður Mannréttindaráð og færa verkefni sem snúa að mannréttindum undir Velferðarráð.
Geðþótti ræður útdeilingu milljarða.
Forseti.
Velferð einstaklinga byggir á því að allir hafi í sig og á og séu þátttakendur í samfélaginu. Fátækragildran er ömurlegasti vottur um misheppnað skipulag og misheppnaða stjórn samfélagsmála. Borgarstjórn Reykjavíkur hefur tekið sér nafnið Velferð fyrir eitt fagsviðanna við það verkefni að fást við grunnþarfir einstaklinganna. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir að grunnupphæð fjárhagsaðstoðar verði sú sama og á þessu ári. Í raun þýðir það að um raunlækkun verður að ræða þar sem ekki er gert ráð fyrir hækkun sem nemur verðbólguþróuninni. Við á F-listanum tökum hér undir gagnrýni Samfylkingar og Vinstri grænna að verðbólgutölur skuli ekki teknar með í þennan útreikning. Það er grundvallaratriði í íslensku samfélagi að allir hafi næga fjármuni til að framfleyta sér. Um leið þurfum við að aðstoða þá sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda, að finna sér sem best brautargengi í lífinu.Við á F-listanum teljum að á sviði Íþrótta- tómstundasviðs þurfi að fara fram gagnger uppskurður. 7 milljarða króna rekstur fer að stórum hluta fram með tilviljanakenndum geðþóttaákvörðunum um framlög til hinnar og þessarar starfsemi og íþróttafélaga. Hér eru engar reglur eða sanngirnis sjónarmið um skiptingu á milli íþróttagreina, á milli hverfa í borginni eða um þáttökufjölda. Í nútíma samfélagi þar sem allar upplýsingar liggja fyrir um þá einstaklinga sem njóta þessarar starfsemi á fjármagnið -að okkar mati- að fylgja þeim sem taka þátt. Einstakir borgarfulltrúar eiga ekki að hafa rétt til þess að hafa hér áhrif á að öðru leyti en því að taka ákvörðun í þessum sal, hér og nú um heildarframlag til málaflokksins. Börn og unglingar í sambærilegu borgarstyrktu tómstundastarfi eða námi, eins t.d. íþróttum eða tónlistanámi eiga að sjálfsögðu að njóta sömu niðurgreiðslna af hálfu borgarinnar hvar sem þeir búa í borginni eða hvaða þjónustustofnanir sem þeir velja að sækja til, -en svo er ekki nú. Því miður ég verð að segja það hér- að þá virðast hugtök sem menn skarta fyrir kosningar oft vera innihaldslaust snakk. Máttur hinnar frjálsu og heiðarlegu samkeppni fer oft fyrir lítið í starfi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur þó flokkurinn skarti því hugtaki á tyllidögum. Hver kannast ekki við jafnréttishjalið hjá Samfylkingunni og Vinstri grænum, - hvar sér þess stað í tillöguflutningnum þegar kemur að þjónustu borgarinnar við börnin og unglingana?
Betri stjórn - bætt siðferði
Forseti.
Í lokin þá legg ég hér fram eftirfarandi bókun:
F-listinn mótmælir framkomu borgarstjórnar að bjóða fulltrúa listans ekki þátttöku í nefnd þeirri sem kallaður er aðgerðahópur.
F-listinn mómælir því að ekki skuli gert ráð fyrir því í fjárhagsáætluninni fyrir árið 2010 að hefja vinnu við viðbyggingar Korpuskóla og Rimaskóla á því ári.
F-listinn lýsir vonbrigðum sínum með að framkvæmdir við gatnamót Bústaðarvegar og Reykjanesbrautar, gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og lagningu Miklubrautar undir Lönguhlíð skuli ekki vera hafnar.
F-listinn krefst þess að borgarstjóri greiði F-listanum lögbundið framlag til stjórnmálasamtaka fyrir árið 2009 strax.
F-listi Frjálslyndra og óháðra minnir á mikilvægi þess að verðlaunatillaga skoskra arkitekta um skipulag Vatnsmýrarinnar verði lögð til hliðar og ákvarðanir teknar um veru flugvallar í Vatnsmýrinni nokkra áratugi fram í tímann.
F-listinn varar við töku dýrra lána til virkjanaframkvæmda og ósjálfbærra orkuframkvæmda.
F-listinn minnir á að hitavatnsauðlindin sem umlykur höfuðborgarsvæðið er ekki ótæmandi orkulind. Komandi kynslóðir á Íslandi þurfa á þessari orkulind að halda.
F-listinn leggur ríka áherslu á að aflétta eða lækka gjöld hjá elli og örorkulífeyrisþegum. Því þarf að hækka viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatt og holræsagjalds elli- og örorkulífeyrisþega.
F-listinn minnir á að draga megi úr kostnaðarsamri yfirbyggingu í borginn, m.a. með því að fækka fagráðum og sviðum borgarinnar úr 9 í 7, með því að sameina menntaráð og leikskólaráð, en einnig með því að sameina velferðarráð og mannréttindaráð.
F-listinn krefst þess að börn og unglingar í sambærilegu borgarstyrktu tómstundastarfi eða námi, eins t.d. íþróttum eða tónlistanámi njóti sömu niðurgreiðslna af hálfu borgarinnar hvar sem þeir búa í borginni eða hvaða þjónustustofnanir sem þeir velja að sækja til.
F-listinn telur að brýnasta verkefnið í íslenskum stjórnmálum sé bætt siðferð. Því markmiði verður ekki ná nema frambjóðendur geri hreint fyrir sínum dyrum hvað varðar fjárframlög frá fyrirtækjum og samtökum og upplýsi hvaða hagsmuni viðkomandi fyrirtækja þeirra framboð stendur fyrir.
Forseti.
Þar sem F-listinn hefur ekki átt fulla aðild að gerð þeirrar fjárhagsáætlunar sem hér liggur fyrir höfum við tekið ákvörðun um að sitja hjá við afgreiðslu hennar. Ég vil svo nota tækifærið og óska borgarfulltrúum og starfsmönnum borgarinnar gleðilegra jóla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)