Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Höfuðborgarhlutverkið

Sveitarfélagið Reykjavík er kallað höfuðborg.  Samt hefur það samkvæmt lögum engin réttindi eða skyldur umfram önnur sveitarfélög.  Ástæða nafngiftarinnar er  að Reykjavík hýsir stærstan hluta af stjórnsýslu landsins svo og þær þjónustustofnanir sem mikilvægastar eru íslensku samfélagi svo sem eins og Landsspítala Íslands og Háskóla Íslands.  Í Reykjavík er einnig aðal inn- og útflutningshöfn landsins.

Ástæður tilkomu þessa höfuðborgarhlutverks byggjast á legu Reykjavíkur.  Það var ekki tilviljun að landnámsmaðurinn Ingólfur Arnarson settist að í Reykjavík.  Þar var frá náttúrunnar hendi góð lending.  Í Hafnarfirði og Reykjavík voru fyrstu öruggu lendingarnar allt frá Austfjörðum, vestur með suðurströndinni og fyrir Reykjanes.  Frá Reykjavík var göngu- og reiðleið yfir Mosfellsheiði á Þingvelli og þaðan vestur um land og yfir Kjöl til Norðurlands.

Reykjavík er á krossgötum lands og sjávar.  Skipaferðir frá Norðurlandi, Vestfjörðum og Vesturlandi lágu flestar til hinnar góðu hafnar í Reykjavík og þar byggðist upp inn- og útflutningshöfn allra landsmanna.  Með bættum samgöngum á landi hefur þessi krossgötumynd breyst, en hlutverk Reykjavíkur sem samgöngumiðstöð hefur síst minnkað.  Hafnirnar í Reykjavík eru ennþá stærstu hafnir landsins.  Samgöngur á landi frá þessum höfnum hafa þó ekki fylgt þeirri þróun sem orðið hefur á umfangi flutninga og stærð flutningatækja og vörueininga.  Vegasamgöngur til og frá Reykjavík hafa verið mikið til umræðu og stendur til að gera úrbætur á næstu árum.

Eftir að flugvöllur var lagður í Vatnsmýrinni í Reykjavík styrktist hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar og landsmenn hafa ávallt lagt áherslu á góðar samgöngur í lofti.  Þrátt fyrir tímabundinn bágan hag landsbyggðarinnar og fólksfækkun á mörgum stöðum, þurfum við að átta okkur á að samgöngur í lofti innan lands verða áfram mikilvægar og munu ekki minnka.

Því er haldið fram að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni sé hættulegur og það sé tímaspursmál hvenær mikið óhapp verði.  Vissulega er það rétt að nokkur áhætta fylgir því að hafa flugvöll í borginni.  Það er hins vegar vandséð hvernig hægt sé að koma í veg fyrir þennan áhættuþátt, hvort sem völlurinn er í Vatnsmýrinni eða í næsta nágrenni höfuborgarsvæðisins.  Verði innanlandsflugið frá Reykjavík aflagt, mun það leiða til þess að mikill fjöldi fólks mun í staðinn þurfa að leggja leið sína til og frá Reykjavík með bifreiðum og samkvæmt tölulegum staðreyndum um slysatíðni mun sú fjölgun ferða á þjóðvegunum leiða til fjölgunar banaslysa í umferðinni.

Segja má að krossgöturnar í Reykjavík séu í þrjár áttir, -um landveg, sjóveg og loftveg.  Ef við leggjum loftveginn niður, rýrum við gildi Reykjavíkur sem höfuðborgar og um leið veikjum við stoðir samfélagsbyggingarinnar sem treystir á flugsamgöngur í Vatnsmýrina.

Hugmyndir eru uppi um að hægt sé að flytja flugvöllinn upp á Hólmsheiði. Rannsóknir standa yfir á aðstæðum þar, en það flugvallarstæði er í 120 metra hæð yfir sjávarmáli.  Einnig hefur verið bent á að hægt sé að leggja flugvöll á uppfyllingu í Skerjafirði.   Nýjasta hugmyndin er að lestarsamgöngum verði komið á, á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar og þar með megi leggja flugvöllinn í Vatnsmýrinni niður. 

Það er ekkert að því að ræða framtíð og þróun flugsamgangna og kanna hvort  annað flugvallarstæði finnist á höfðuðborgarsvæðinu.  Það er sjálfsagt að ræða og kanna hvort lestarsamgöngur milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar séu raunhæfar.  En það er engin ástæða til að taka ákvörðun um leggja flugvöllinn niður áður en nýtt flugvallarstæði er fundið eða að sýnt hefur verið fram á að lestarsamgöngur til Keflavíkur geti komið í staðinn fyrir flugvöll á höfuðborgarsvæðinu.  Og það er í raun út í hött að taka slíka ákvörðun fyrr en nýr flugvöllur er risinn eða lestarteinn hefur litið dagsins ljós. 

Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri Reykjavíkur og Kristján L. Möller samgönguráðherra hafa handsalað að hafin skuli bygging samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni og skal henni lokið fyrir áramótin 2009.  Miðstöðin mun m.a. þjóna öllum þeim flugfélögum sem hafa innanlandsflug til og frá Reykjavík á sinni könnu. Það var eitt helsta áherslumál Ólafs F. Magnússonar og F-lista Frjálslynda flokksins og óháðra í síðustu sveitarstjórnarkosningum að ekki yrði hreyft við flugvellinum í Vatnsmýrinni, þar sem engar ásættanlegar forsendur hefðu verið lagðar fram fyrir breytingum á veru hans.  Frjálslyndi flokkurinn leggur áherslu á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar sem innanlands- og sjúkraflugvallar auk þess að benda á hversu mikilvægur hann er sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug.

Þá fyrst er hægt að taka ákvörðun um að leggja flugvöllinn í Vatnsmýrinni niður þegar öll þau skilyrði eru uppfyllt sem gerð eru til þeirra gríðarlegur breytinga sem færsla flugvallar eða flugsamgangna hefðu í för með sér.

Höfundur er varaþingmaður Frjálslynda flokksins.

Greinin birtist í 24 stundum 29. apríl 2008.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband