6.7.2007 | 11:54
"Mótvægisaðgerðir"
Einhver undarlegasta hugmynd síðustu vikna er um einhverskonar mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar á leyfðum þorskafla. Hugmyndin er sú að þeir sem búa í sjávarplássunum muni geta snúið sér að einhverju öðru en veiðum og vinnslu sjávarafla. Því miður er ekki hægt að breyta eðli sjávarplássa. Sjávarpláss byggjast upp vegna nálægðar við fiskimið. Ef ekki má veiða á þessum miðum þá er grundvöllur þeirra brostinn. Atvinnuöryggið byggist á þessu. Fólk vill búa við atvinnuöryggi og einhver tilbúin störf sem hægt er að stunda með meiri hagkvæmni annarsstaðar duga ekki og þóknast engum.
Nú verður þorskaflinn á næsta veiðiári 130 þús. tonn, -nær hefði verið að auka hann í 260 þús. tonn. Það þarf að grisja skóginn, beita móann og skera þangið. Sjórinn er fullur af fiski og það þarf að veiða úr honum. Hvar ætla íslensk stjórnvöld með Hafró í farteskinu að enda þessa fáránlegu tilraunir sínar? Kenningar Hafró um lífríkið í sjónum eru rangar, rannsóknirnar ónógar og allar tilraunirnar með "uppbyggingu" þorskstofnsins hafa mistekist. Hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera ef Hafró kemur enn og aftur eftir einhver misseri og segir að nú þurfi að minnka veiðina enn og aftur og í þetta sinn niður í 100 þús. tonn, því samkvæmt "mælingum" þurfi að minnka veiðina til að "byggja upp" stofninn?
Íslensk stjórnvöld og Hafró eru á villigötum. Kenningarnar eru rangar. Meintur aflabrestur er ekki af mannavöldum. Það þarf að snúa við blaðinu, -leyfa frjálsar veiðar, hætta að takmarka aflamagn, en stýra því hvar er veitt, hvenær og með hvaða veiðarfærum.
Leggjum kenningar Hafró til hliðar, hættum þessari tilraunastarfsemi með aflamagnið, en höldum áfram að láta Hafró rannsaka, -það skaðar engann.
Leggjum svo af kerfi veiðiheimilda til útvaldra.
Nú fara fleiri sjávarpláss en áður á hliðina. Hvenær ætli Sjálfstæðisflokknum takist að leggja íslenskan sjávarútveg niður? Sjálfstæðisflokknum er einnig að takast að leggja íslenskan landbúnað í rúst. Það mætti halda að Sjálfstæðisflokkurinn sé einhver öfgatrúarbragðahópur sem fer um löndin og brýtur niður á augabragði allt það sem þjóðir hafa upp byggt á löngum tíma.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.